Umboðssöluviðskipti

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 13:46:30 (1453)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Þetta mál er eins og mörg önnur sem hafa verið futt í tengslum við staðfestingu á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði að við höfum tekið þau öll til ítarlegrar umfjöllunar í efh.- og viðskn. Það hefur verið leitað umsagna um þessi frv. og þær umsagnir hafa gefið tilefni til breytinga og hugleiðinga sem munu koma fram þegar mál þessi koma til afgreiðslu.
    Ég tel ekki ástæðu til að fjalla efnislega um þetta mál. Ég tel það betur henta í nefndarstarfi eins og í öllum öðrum málum sem þessu tengjast. Ég vil aðeins taka það fram að hér er um mikið starf að ræða og mikilvægt að nefndirnar hafi góðan tíma. Þær hafa hins vegar, a.m.k. efh.- og viðskn., ekki haft nægilegan tíma til að fjalla um þessi mál og þar af leiðandi mun það ef til vill taka lengri tíma en hæstv. ríkisstjórn hefur reiknað með.
    Hins vegar hefur mér þótt koma fram m.a. í máli hæstv. viðskrh. að menn væru á einhvern hátt að reyna að þvælast fyrir þessum málum á Alþingi. Svo er alls ekki. Ég get fullvissað hæstv. viðskrh. um það. Enda höfum við leitast við að vera ekki að fara út í miklar umræður um þau þegar hæstv. viðskrh. hefur mælt fyrir þeim við 1. umr. en reynt þeim mun betur að kynna okkur málið í nefndarstarfinu. Þann hátt tel ég eigi að vera á málinu og þess vegna hefur mér þótt það heldur ómaklegt af hæstv. viðskrh. að láta í það skína að nefndarmenn væru á einhvern hátt að reyna að tefja framgang þessara mála. Svo er alls ekki og það höfum við reynt að sýna hér í umræðum.