Umboðssöluviðskipti

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 13:48:59 (1454)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég vil lýsa mig algerlega sammála hv. 1. þm. Austurl. um að það sé heppilegt og langheppilegasta vinnuaðferðin að fjalla um þessi viðskiptareglufrumvörp, sem mörg hafa verið lögð fyrir þingið á þessu hausti, í efh.- og viðskn. og eftir atvikum öðrum nefndum sem um þau mál fjalla. Um þetta er ég algerlega sammála hv. þm. og vil að lokum taka það fram að ég er afar þakklátur fyrir það samstarf sem tekist hefur bæði í þinginu og í hv. efh.- og viðskn. um vinnuna við mjög mörg af þessum málum.
    Það sem hér var að vikið hjá hv. þm. að ég hefði sakað þingmenn um það að vera að tefja fyrir málum kannast ég ekki við. En hitt er annað að umræðan um samninginn sjálfan, um frv. um hið Evrópska efnahagssvæði og ýmislegt sem því tengist hefur að mínu áliti tekið of mikinn tíma í þinginu.