Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 13:51:50 (1456)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Frv. þetta er lagt fyrir Alþingi vegna fullgildingar samnings um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Með samþykkt frv. eru lögfestar reglur sem settar eru fram í tilskipun Evrópubandalagsins nr. 77/187, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar. Skv. 8. gr. tilskipunarinnar og með vísan til samnings um Evrópskt efnahagssvæði skulu aðildarríkin setja nauðsynleg lög og stjórnvaldsfyrirmæli til að hrinda markmiðum hennar í framkvæmd.
    Þetta frv. er samið af nefnd sem ég skipaði til að undirbúa aðild Íslands að frjálsum atvinnu- og búseturétti á Evrópsku efnahagssvæði. Ég hef áður gert grein fyrir störfum nefndarinnar í tengslum við önnur EES-frumvörp auk þess sem það er rakið í greinargerð með frv.
    Efni tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 77/187 er ekki að finna í íslenskri löggjöf og slík úrlausnarefni hafa ekki mikið verið á borðum stjórnvalda. Almennt séð hafa lítil takmörk verið fyrir því til hvaða ráðstafana nýir eigendur geta gripið við aðilaskipti að atvinnurekstri hér á landi. Þó þeir verði jafnan að halda sig við gildandi lög og kjarasamninga, þá eru þeir almennt ekki bundnir af sérstökum ráðningarsamningum fyrri eigenda nema þess sé sérstaklega getið í aðilaskiptasamningi.
    Með aðilaskiptum er samkvæmt frv. þessu átt við þau tilvik þegar nýr aðili, einstaklingur eða lögaðili, verður lagalega ábyrgur fyrir rekstri fyrirtækis, atvinnurekstrar eða hluta hans. Aðilaskipti geta átt sér stað með framsali kröfuréttinda á grundvelli kaupsamnings sem og leigusamnings. Ákvæði þessa frv. eiga einnig við þegar samruni fyrirtækja á sér stað. Þá er sá möguleiki og fyrir hendi að aðilaskipti geti orðið í öðrum tilvikum, svo sem nauðungarsölu eða uppboð á fyrirtæki. Sú undantekning sem er gerð vegna gjaldþrotaskipta verður að teljast sjálfsögð með hliðsjón af eðli skipta sem þessara.
    Breyting á eignaraðild að hlutabréfum hlutafélaga teljast ekki aðilaskipti í merkingu laga þessara þar sem sami lögaðili er eftir sem áður ábyrgur fyrir rekstri fyrirtækisins og þar af leiðandi vinnuveitandi starfsmanna og ber því eðli málsins samkvæmt að standa við gerða ráðningarsamninga.
    Meginreglan í þessu frv. er sú að frá og með þeim degi sem aðilaskipti verða tekur nýr atvinnurekandi við öllum réttindum og skyldum sem fyrri atvinnurekandi bar gagnvart starfsmönnum í fyrirtækinu eða atvinnurekstrinum að því er snertir ráðningarkjör, þar með talin áunnin réttindi svo og önnur starfsskilyrði. Þetta gildir um ráðningarkjör gagnvart kjarasamningum svo framarlega sem aðild að kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags sé ekki sagt upp vegna breytinga á eðli eða rekstrarformi fyrirtækisins.
    Í því felst að starfsmennirnir eru eftir aðilaskiptin eða samruna ráðnir áfram hjá hinum nýja atvinnurekenda á sömu kjörun og þeir nutu samkvæmt ráðningarsamningi eða kjarasamningi hjá fyrri atvinnurekanda. Þessi réttindi og skyldur haldast án þess að til sérstakra ráðstafana þurfi að koma af hálfu þeirra aðila sem hlut eiga að máli. Þetta gildir eðlilega eingöngu um þá starfsmenn sem eru ráðnir hjá fyrri atvinnurekanda við aðilaskiptin.
    Sérstaklega er tekið fram að áunnin réttindi skuli haldast gagnvart hinum nýja aðila. Er þar m.a. átt við orlofs- og veikindarétt starfsmanna, uppsagnarrétt og rétt til starfsaldurshækkana í launum sem starfsmenn hafa áunnið sér samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi með starfi sínu hjá fyrri atvinnurekanda. Þá breytast ekki heldur skyldur þær er hvíldu á starfsmönnum samkvæmt ráðningarsamningi eða kjarasamningi gagnvart hinum nýja atvinnurekanda við aðilaskiptin.
    Samkvæmt frv. geta aðilaskiptin sem slík ekki verið ástæða fyrir uppsögn starfsmanna af hálfu atvinnurekenda, hvorki fyrir né eftir aðilaskipti. Hins vegar er ekki ætlunin að hindra atvinnurekendur alfarið í því að segja starfsmönnum upp vinnu en þegar um slíkt er að ræða verður að vera unnt að rekja þær uppsagnir til efnahagslegra, tæknilegra eða skipulagslegra ástæðna sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi í fyrirtækinu.
    Þá er ákvæði um að sé ráðningarsamningi rift, t.d. af starfsmanni vegna þess að aðilaskiptin hafi í för með sér verulegar breytingar á starfsskilyrðum starfsmanni í óhag, skal litið svo á að atvinnurekandi beri ábyrgð á riftun samningsins.
    Þegar aðilaskipti verða skal trúnaðarmaður halda réttarstöðu sinni og starfi samkvæmt lögum og samningum að svo miklu leyti sem atvinnureksturinn heldur sjálfstæði sínu. Aðalreglan er því sú að trúnaðarmaður starfsmanna í fyrirtæki heldur bæði réttarstöðu sinni sem slíkur og starfi í samræmi við það sem kveðið er á um í lögum hverju sinni þrátt fyrir aðilaskipti svo framarlega sem eðli atvinnurekstrarins er það sama.
    Ef trúnaðarmaður missir umboð sitt vegna aðilaskiptanna skal hann eftir sem áður njóta þeirrar verndar sem lög eða samningar kveða á um. Leiði aðilaskiptin þannig til þess að hann missi umboð sitt,

sem m.a. getur átt sér stað í kjölfar skipulagsbreytingar, t.d. við sameiningu starfshópa eða breytingu á störfum, þá skal hann eftir sem áður njóta verndar gegn t.d. uppsögnum, sbr. 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
    Aðilaskipti eða samruna skulu þeir sem hlut eiga að máli tilkynna trúnaðarmanni starfsmanna eða starfsmönnum sjálfum sé trúnaðarmaður ekki fyrir hendi með eins góðum fyrirvara og hægt er og a.m.k. áður en aðilaskipti koma til framkvæmda. Einnig hvílir á sömu aðilum skylda til að upplýsa hlutaðeigandi starfsmenn um ástæður fyrir aðilaskiptunum eða samrunanum. Einnig skulu þeir upplýsa um lagalegar, efnahagslegar og félagslegar afleiðingar aðilaskiptanna fyrir starfsmenn og um allar fyrirhugaðar ráðstafanir vegna starfsmanna.
    Ef það liggur fyrir að atvinnurekandi hafi í huga að gera ráðstafanir vegna starfsmanna vegna aðilaskipta eða samruna skal hann hafa samráð við trúnaðarmann starfsmanna eða starfsmennina sjálfa í því skyni að ná samkomulagi um þær. Slíkt samráð skal hafa með góðum fyrirvara og áður en fyrirhugaðar ráðstafanir koma til framkvæmda.
    Af þessu má vera ljóst að frv. þetta felur í sér verulegar réttarbætur fyrir launafólk þó mikið ráðist af því hvernig til tekst um framkvæmdina og túlkun einstakra ákvæða.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.