Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 13:58:13 (1457)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða á þessu stigi til að hafa mörg orð um frv. Það verður skoðað í þeirri nefnd sem ég á sæti í þannig að mér gefst tækifæri til að fara ítarlegar yfir efni þess en hér gefst. Ég vildi þó varpa fram spurningum til hæstv. ráðherra.
    Í fyrsta lagi hvort nauðsyn beri til að frv. sé tengt Evrópsku efnahagssvæði með eins rækilegum hætti og fram kemur í 1. gr. og gildistökugrein, hvort ekki sé hægt að útbúa efni frv. þannig að það geti staðið sjálfstætt hvort heldur af þessu svæði verður eða ekki.
    Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra varðandi 3. mgr. 1. gr. Þar er sérstaklega kveðið á um að lög þessi gildi ekki um haffær skip sem þýðir að ákvæði frv. um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eiga ekki við þegar um haffært skip er að ræða. Þetta er í annað skipti sem fram kemur sérstaklega að sjómenn eru undanskildir réttindaákvæðum í frv. sem hæstv. félmrh. flytur. Ég minni á ákvæði frv. um hópuppsagnir sem veitir launþegum ákveðin réttindi og ákveðna vernd en þar er rækilega tekið fram að áhafnir skipa eru undanþegnar þeim réttindum án þess að nokkur skýring sé að öðru leyti gefin á því undanþáguákvæði. Í þessu frv. eru heldur engar skýringar gefnar hvers vegna áhafnir haffærra skipa eru undanþegnar réttindaákvæðum þessa frv.
    Ég vildi gjarnan fá skýringar hæstv. ráðherra á því hvers vegna sjómannastéttin er sérstaklega undanþegin. Það kunna að vera skýringar á því sem láðst hefur að geta um í framsöguræðu og greinargerð með frv.
    Fleira tel ég ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að tína til af efnisatriðum, en ég vek athygli á því að haffær skip geta verið fyrirtæki þannig að aðilaskipti geta farið fram á þeim eins og kveðið er á um í 1. mgr. 1. gr. Því er nauðsynlegt að hafa fullkomnar skýringar á því hvort starfsmenn á haffærum skipum njóti sömu réttinda og aðrir starfsmenn sem frv. nær til. Það kann að vera að slík ákvæði sé að finna annars staðar og verður það þá vonandi upplýst en ég vek athygli á því að það er ekki gerð grein fyrir því í frv.