Fjarskipti

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 14:14:44 (1461)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðlegur forseti. Aðeins örfá orð. Ég á sæti í samgn. og fæ þess vegna tækifæri til að fara betur ofan í málið og fá upplýsingar sem er mjög nauðsynlegt að fá. Ég held að þarna sé um verulegar breytingar að ræða sem þarf að skoða vandlega. Einnig þarf að athuga hvort fleiri reglur þurfa að fylgja en hér koma fram. Mig langar samt fyrst að víkja að því sem kemur fram í 5. gr. Það er dálítið almenns eðlis. Þar er verið að tala um það að samgrh. setji reglugerð. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Samgrh. setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd fjarskiptamála, eftirlit með þeim og annað er þar að lýtur. Honum er heimilt að setja reglugerðir á sviði fjarskipta að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiða af samningi um Evrópskt efnahagssvæði milli Efnahagsbandalags Evrópu . . .  ``     Það sem mig langar til að segja í þessu sambandi er að ég tel að það þurfi að koma skýrt fram með hvaða hætti hugmyndin er að haga reglugerðarsetningu eftir að EES-samningurinn tekur gildi ef hann þá gerir það. Í öllum lagafrv. sem ég hef séð er meira og minna gert ráð fyrir því að ráðherrar hafi heimildir til að setja reglugerðir á grundvelli samningsins. Það er orðað með þeim hætti að setja reglugerðir sem leiða af samningnum. Þá liggur beint við að spyrja þegar breytingar verða á viðkomandi reglugerðum hjá EB: Þarf sú reglugerðarbreyting að komast til framkvæmda á öllu EES-svæðinu? Þá erum við auðvitað skuldbundnir samkvæmt samningnum til þess, hvað sem hver segir, að láta þessar breytingar koma fram hér. Það er hvergi orðað og hefur hvergi verið gerð grein fyrir því, a.m.k. svo ég hafi heyrt til, með hvaða hætti þetta á að fara fram.
    Þetta má skilja, samkvæmt orðanna hljóðan, þannig að ráðherra hafi leyfi til að setja nýjar reglugerðir ef hægt er að rökstyðja að það þurfi að gera það vegna samningsins. Ég tel að það sé óviðunandi aðferð að ráðherra hafi heimild til að breyta reglugerðum án þess það komi til kasta þingsins með einhverjum hætti. Ég tel þess vegna mjög nauðsynlegt að menn ræði það í alvöru með hvaða hætti hugmyndin er að standa að breytingum og reglugerðum eftir að búið er að staðfesta þennan samning ef hann verður staðfestur.
    Það er annað sem ég hef áhuga á að vita. Nú virðist andi frv. vera sá að það eigi að gefa öllum jafnan aðgang að þeirri þjónustu sem veitt er á vegum þessa fyrirtækis eða þessarar fjarskiptaþjónustu. Ég veit svo sem að kannski er ekki litið þannig á að ljósleiðarakerfið sé hluti af því, þ.e. það tilheyrir þá frekar fjarskiptakerfinu sem er áfram undir einkaleyfi. En gott og vel. Andinn í frv. er samt sá að allir aðilar eiga að hafa sama rétt á aðgangi að þeirri þjónustu sem veitt er. Því spyr ég: Er sá samningur sem Póstur og sími er búinn að gera við Stöð 2 samrýmanlegur þeim skoðunum? Ég á við að það verður að vera gildandi gjaldskrá sem allir hafa aðgang að, með sama verði ef hægt á að vera að líta á það þannig að verið sé að gera öllum jafnhátt undir höfði. Er það þá meiningin hjá Pósti og síma að gefa öllum tækifæri til viðskipta á sama grundvelli og samið hefur verið um við Stöð 2, t.d. um aðgang að ljósleiðarakerfi? Ég hef áhuga á að vita hvernig hæstv. ráðherra lítur á þetta mál.

    Ég vil nefna annað atriði. Það er sú tillaga sem kemur þarna fram um að sett verði upp sérstök eftirlitsstofnun, Fjarskiptaeftirlit ríkisins, sem ég ætla ekki að mótmæla að verði gert en ég vek athygli á því að þarna er á ferðinni allt önnur afstaða en kemur fram t.d. gagnvart sjávarútvegsmálum núna. Þar er lögð áhersla á að ríkið fari út úr eftirlitsþættinum og það á að stofna sérstakar skoðunarstofur. Þær eiga að vera einkafyrirtæki og Ríkismat sjávarafurða á að verða að hlutafélagi og ríkið ætlar sem sagt að losa sig þar út. Hér er það rökstutt með sannfærandi hætti að losa þurfi ríkið undan því, eins og stendur í athugasemdum við frv.:
    ,,Samkvæmt gildandi lögum um fjarskipti fer Póst- og símamálastofnun bæði með eftirlitshlutverk er varðar fjarskipti og atvinnurekstur. Slík samþætting felur í sér margvíslegar hættur á hagsmunaárekstrum og misnotkun.``
    Í frv. sem við höfum til meðferðar í sjútvn. er gert ráð fyrir að það geti verið sömu eigendur að skoðunarstofunum og reka viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki. Þessar skoðunarstofur eiga að vera með samninga við sína umbjóðendur. Þær hafa það hlutverk að passa upp á að þeir fari eftir reglunum og það eru tillögur þessara skoðunarstofa sem koma til umfjöllunar hjá Fiskistofu, þ.e. hvort viðkomandi á að missa leyfin. Þarna er hver hagsmunaáreksturinn ofan í annan. Ég fagna því að menn skuli ekki ætla að setja upp svipað kerfi hér. En ég vek athygli á því að allt annar skilningur virðist á ferðinni í samgrn. en í sjútvrn. hvað varðar það hvernig haga eigi eftirliti með starfseminni.
    Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fjalla um einstaka þætti málsins. Ég hef ekki kynnt mér það nægilega mikið en ég fæ tækifæri til þess og ætla þess vegna ekki að hafa orð mín fleiri.