Fjarskipti

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 14:25:36 (1463)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Fyrri spurningin, sem til mín var beint, vék að því hvort allir mundu fá að njóta sömu þjónustukjara og Stöð 2 varðandi ljósleiðara. Mér er ekki kunnugt um annað en að allir standi jafnfætis gagnvart Pósti og síma að þessu leyti. Ég þekki ekki reglur um að sú stofnun mismuni sínum viðskiptamönnum, hvorki í þessu efni né öðrum, heldur gildi almennar reglur um þjónustu Pósts og síma.
    Síðari spurningin sem báðir hv. þm. sem til máls tóku viku að er spurningin um Fjarskiptaeftirlit ríkisins. Ætli það sé ekki þannig í flestum löndum Vestur-Evrópu að búið er að aðgreina eftirlitsþáttinn og rekstrarþáttinn með fjarskiptum, ef svo má að orði kveða. Það er talið óeðlilegt að fyrirtæki eins og Póstur og sími geri hvort tveggja í senn, annast þjónustu og hafa einkarétt á henni sem henni er ákveðið með lögum og líka að Póstur og sími skuli vera eftirlitsaðili með því hvernig sú þjónusta er veitt og hvernig ýmsir viðskiptavinir og samkeppnisaðilar standa að vígi gagnvart þessu fyrirtæki. Þetta er því ekki eingöngu spurning um hið Evrópska efnahagssvæði heldur þróun sem hefur orðið í starfsemi eins og þessari, í Bandaríkjunum og annars staðar. Þegar hefur verið stigið fyrsta skrefið með því að ég hef skipað Fjarskiptaeftirliti ríkisins sjálfstæða stjórn. Í henni eiga sæti, eins og stendur í greinargerð, fulltrúi Póst- og símamálastofnunar, fulltrúi samgrn. og fulltrúi þeirra sem veita sams konar þjónustu. Þessi aðgreining eftirlitsins og þjónustunnar er einungis tímanna tákn, eðlileg þróun sem ég hygg að allir séu sammála um að sé nauðsynleg um leið og þeim hefur gefist kostur á að ræða við fulltrúa Pósts og síma og aðra þá sem koma að fjarskiptaþjónustu. Ég held að ekki sé ástæða til að hafa um þetta fleiri orð.