Sveigjanleg starfslok

37. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 10:34:13 (1465)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Suðurl. hefur borið fram fsp. um hverjir eiga sæti í nefnd sem skipuð var samkvæmt ályktun Alþingis um sveigjanleg starfslok, hvernig störfum nefndarinnar miðar og hvenær áætlað er að hún ljúki störfum.
    Ályktunin sem vitnað var til var samþykkt á Alþingi 13. apríl 1989 og var svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd er fái það hlutverk að móta reglur um sveigjanlegri starfslok, t.d. á aldursbilinu 64--74 ára.``
    Nefnd þessi var ekki skipuð fyrr en tveimur árum síðar eða í mars 1991. Í nefndina voru skipuð þau Guðmundur Benediktsson, fyrrv. ráðuneytisstjóri, formaður, Barði Friðriksson, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, Guðríður Elíasdóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Björn Jósef Arnviðarson, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga og Ólafur Ólafsson landlæknir.
    Nefndin hefur aðeins komið saman einu sinni og mun þá hafa ákveðið að afla ýmissa gagna frá viðkomandi aðilum, svo sem samtökum atvinnurekenda, launþega, lífeyrissjóðum, Félagi eldri borgara, Læknafélagi Íslands og fleirum. Heimtur á umbeðnum gögnum hafa þó ekki verið allt of góðar.
    Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda vísuðu flm. til þess að þeir teldu það mannréttindi að fólk héldi starfsréttindum svo lengi sem hæfni, starfsorka og starfslöngun væri fyrir hendi. Það eigi hvorki að vera lögþvingun né einhliða réttur atvinnurekenda að þvinga fólk til að hætta störfum þegar ákveðnu aldursmarki er náð.
    Út af fyrir sig er hægt að taka undir það að það er óæskilegt að þeir sem hafa heilsu og vilja til þess að vinna verði að hætta störfum fyrr en þeir kæra sig um. Á hinn bóginn er það býst ég við regla í flestum ef ekki öllum þjóðfélögum að menn setja a.m.k. gagnvart hinu opinbera aldursmörk af þessu tagi. Sums staðar, til að mynda víða á Norðurlöndum, eru þessi aldursmörk miklu lægri. Ég get nefnt sem dæmi

að í Finnlandi mun vera miðað við 63 ára aldur.
    Hins vegar tel ég að þessi tillaga og sú hugsun sem að baki henni býr sé mikils virði og ég get fyrir
mitt leyti sagt að ég sem borgarfulltrúi tók þátt í því á sínum tíma að málin væru unnin hjá Reykjavíkurborg með svipuðum hætti. Þar var nefnd að störfum alllangan tíma. Hún skilaði áliti og niðurstaðan varð síðan sú að þar er önnur skipan á en hér hjá ríkinu. Þar geta menn fengið að vinna í fullu starfi til 71 árs aldurs en ekki til sjötugs eins og hjá ríkinu. Eftir það geta menn, eins og segir reyndar í ályktun þessara flm. og fyrirspyrjanda, ef heilsa og starfsorka leyfir og aðstæður unnið í hálfu starfi til 74 ára aldurs.
    Ég minnist þess vel að þegar þetta var rætt og síðan reyndar ákveðið hjá Reykjavíkurborg voru mörg aðvörunarorð uppi um að þetta mundi geta reynst borginni afar illa. Menn mundu kannski sitja uppi með starfsmenn sem ekki mundu valda sínu hlutverki o.s.frv. Reynslan er ekki sú. Reynslan af þessu hjá borginni hefur eftir því sem ég best þekki til, og ég þekki þar allvel til, verið afskaplega jákvæð og góð.
    Af þeim ástæðum vil ég stuðla að því að þessi nefnd vinni vel að sínum störfum og skili áliti ekki síðar en næsta vor. Menn gætu þá í framhaldi af því ef vilji stendur til þess af þingsins hálfu breytt reglum til að mynda eitthvað í þá veru sem gengið hefur hjá Reykjavíkurborg þó að ég sé ekki að segja að það þurfi endilega að vera sú eina forskrift sem rétt sé og dugi.