Samþykktir Ríó-ráðstefnunnar

37. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 10:44:10 (1469)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Framkvæmdaáætlunin sem samþykkt var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun tekur til allra helstu þátta umhverfis- og þróunarmála. Þetta er eins og hv. fyrirspyrjandi réttilega nefndi mikið skjal, 700 blaðsíður og skiptist í 40 kafla. Í umhvrn. er unnið að greinargerð um ráðstefnuna og ég vænti þess að geta kynnt í næsta mánuði. Þar verður skýrt ítarlega frá þeim þáttum áætlunarinnar sem sérstaklega snerta hagsmuni Íslands.
    Þessi framkvæmdaáætlun er pólitísk stefnumörkun og ekki lagalega skuldbindandi um einstök atriði. Hún er fyrst og fremst leiðsögn um aðgerðir í átt til sjálfbærrar þróunar og ljóst er að um mörg atriði þarf frekari ákvarðanir bæði að því er varðar alþjóðasamvinnu og aðgerðir einstakra ríkja. Það mun áreiðanlega taka mikinn tíma að koma til framkvæmda þeim fjölmörgu stefnumiðum sem þar er að finna.
    Allar samþykktir Ríó-ráðstefnunnar verða lagðar fram á 47. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir. Þess er vænst að þær verði þar staðfestar og sett verði á laggirnar framkvæmdanefnd um sjálfbæra þróun sem samræmi aðgerðir þjóða í anda þessarar áætlunar.
    Hvað varðar framkvæmd áætlunarinnar hér á landi, þá mun umhvrn. og stofnanir þess fara yfir áætlunina í einstökum atriðum og gera tillögur sem miða að því að fylgja efni hennar fram í grundvallaratriðum á sem flestum sviðum. Hluti þeirrar vinnu er raunar þegar hafinn í nefnd á vegum ráðuneytisins.
    Sá kafli sem fjallar um nýtingu lifandi auðlinda hafsins verður á næstunni tekinn til nánari umfjöllunar í samvinnu umhvrn., sjútvrn. og hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Í því sambandi verður leitast við að tryggja að við stefnumótun og framtíðarnýtingu auðlindanna verði tekið tillit til ákvæða þessarar áætlunar. Ég get nefnt sem dæmi áherslur um að auka nýtingu alls sjávarfangs. Íslensk stjórnvöld vinna að því að framfylgja þessum sjónarmiðum og í því sambandi má nefna reglur sem nýlega hafa tekið gildi um fullnýtingu afla nýrra frystitogara.
    Meðal mikilvægra framtíðarverkefna sem samstaða náðist um voru skref í þá átt að vernda fiskstofna vegna ofveiða á úthafinu. Það var ákveðið að boða til alþjóðlegrar ráðstefnu um það efni. Ísland hefur hvatt til þess að boðað verði til hennar þegar á næsta ári. Tel ég mig þá hafa svarað fyrri lið fsp.
    Grundvallaratriði þeirrar stefnu sem var samþykkt á umhverfisráðstefnunni varðandi verndun og nýtingu auðlinda er í fullu samræmi við meginstefnu okkar Íslendinga í þessum efnum og íslenska fiskveiðilöggjöf, þ.e. að nýta beri allar auðlindir á skynsamlegan og sjálfbæran hátt. Við Íslendingar tókum virkan þátt í samstarfi við önnur ríki vegna undirbúnings þessarar ráðstefnu, en það verður að segjast eins og er að þau drög að tillögum sem upphaflega bárust og vörðuðu fiskveiðar ollu okkur verulegum áhyggjum. Þar voru í fyrirrúmi það sem kalla mætti andnýtingarsjónarmið og hafa verið nokkuð áberandi í umræðum að undanförnu. Slík sjónarmið eru í andstöðu við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og þar stefndi allt nokkuð í sömu átt, hvort heldur það voru ákvæði um nýtingu einstakra tegunda, notkun veiðarfæra eða veiðiaðferðir almennt.
    Sem betur fer tókst að breyta þessari þróun á undirbúningsfundum ráðstefnunnar. Það tel ég að þakka megi góðri samvinnu sem tókst hér heima við undirbúninginn, samstarfi umhv.-, utanr.- og sjútvrn., hagsmunaaðila í sjávarútvegi og annarra sem létu sig málið varða, m.a. fulltrúa Alþingis.
    Í framkvæmdaáætlun Ríó-ráðstefnunnar, og það er mikilvægt, er sú meginregla staðfest að allar auðlindir hafsins beri að nýta á skynsamlegan hátt. Að því er varðar nánari stefnumörkun sem fram kemur í framkvæmdaáætluninni má nefna viðleitni til að auka þekkingu á lifandi auðlindum hafsins, nýtingu vannýttra stofna og tegunda, þróun nýrrar tækni, bætta meðhöndlun afla, nýtingu úrgangs, bætta menntun og

þjálfun starfsmanna í sjávarútvegi, aukna valhæfni veiðarfæra, aðlögun stærðar fiskiflota að afrakstursgetu stofna og verndun vistkerfis.
    Allt eru þetta atriði sem íslensk stjórnvöld stefna að á grundvelli þeirra laga og reglna sem gilda á sjávarútvegssviðinu. Stjórnkerfið sem stuðst er við í dag er í fullu samræmi við markmiðin, enda þótt efast megi kannski um að ákvarðanir hafi alltaf miðast við hagkvæmustu langtímanýtingu fiskstofna. Með þeirri ákvörðun sem tekin var í júní sl. um leyfilegan botnfiskafla á yfirstandandi fiskveiðiári var áreiðanlega farið að ystu mörkum afrakstursgetu stofnanna miðað við núverandi ástand þeirra.