Samþykktir Ríó-ráðstefnunnar

37. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 10:49:10 (1470)

     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli á Alþingi. Ég hafði þá ánægju að vera fulltrúi Alþingis á þessari ráðstefnu og ég held að flest sem þar kom fram og var samþykkt hafi verið í ágætu samræmi við það sem við erum að leitast við að gera hér á landi.
    Ég er hins vegar sammála hv. 3. þm. Vestf., hv. fyrirspyrjanda, um það að undirbúningur ráðstefnunnar, ráðstefnan sjálf og síðan það sem á eftir hefur komið hefur ekki hlotið þá umræðu sem skyldi.
    Ef marka má framgöngu hæstv. umhvrh. og starfsmanna ráðuneytisins á ráðstefnunni og eins það sem síðan hefur fylgt á eftir held ég að hv. 3. þm. Vestf. þurfi ekki að kvíða því að við verðum eftirbátar annarra í því að fylgja fram samþykktum ráðstefnunnar.