Samþykktir Ríó-ráðstefnunnar

37. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 10:54:04 (1473)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina því til hv. 3. þm. Vesturl. að hann kynnti sér þetta mál örlítið betur áður en hann hefur hér uppi stórar fullyrðingar í þeim efnum eins og hann gerði áðan. Ég held að það sé alveg rétt að leggja sérstaka áherslu á að þessi áætlun er pólitísk stefnumörkun. Hún er mjög langt og ítarlegt skjal þar sem verið er að reyna að samræma sjónarmið, taka tillit til allra hagsmuna og þar er margt mjög athyglisvert og þar er líka margt sem má túlka á mismunandi og ólíka vegu. Þessi umræða er rétt að byrja. Það er afar mikilvægt að við Íslendingar tökum þátt í því alþjóðasamstarfi sem fram fer um þessi efni og þá nefni ég sérstaklega þá ráðstefnu sem ég minntist á áðan um veiðar á úthafinu og þær reglur og þann rétt sem þar á að gilda. Við höfum lagt til að það verði boðað fljótt til slíkrar ráðstefnu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð að fylgjast með og láta rödd okkar heyrast þar.
    Ég nefni líka og tek undir með þeim sem áður hafa talað að auðvitað er það mikilvægasta í þessu öllu, það eru í raun og veru straumhvörfin í þessari umræðu, að nýtingarsjónarmiðin hafa orðið ofan á, þ.e. að nýta skuli með sjálfbærum hætti allar lifandi auðlindir sjávarins sem nýtanlegar eru. Það er mikil breyting frá þeirri umræðu sem áður var þar sem var talað í þá veru að ákveðnar auðlindir, eins og sjávarspendýrin, mætti ekki og ætti ekki að nýta. Það sjónarmið hefur orðið undir og andinn í öllu því sem samþykkt var á umhverfisráðstefnunni í Ríó er sá að það eigi með skynsamlegum hætti að nýta allar auðlindir sjávarins.