Safn þjóðminja að Hólum í Hjaltadal

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 11:16:52 (1479)

     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um safn þjóðminja að Hólum í Hjaltadal. Tillagan er 116. mál þingsins á þskj. 136.
    Meðflutningsmaður minn að þáltill. er hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa stofnun safns þjóðminja að Hólum í Hjaltadal er verði einkum helgað kirkjusögu Íslands.``
    Í grg. segir m.a.:
    ,,Tillaga þessi var áður flutt á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú flutt að nýju.
    Þingsályktunartillagan miðar að því að efla það merka uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið að Hólum í kirkju-, skóla- og menningarmálum. Enn fremur miðar tillagan að því að styrkja uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni, virkja í hennar þágu þann mikla menningaráhuga sem fram kemur í starfsemi minjasafna víða um landið og stuðla jafnframt að markvissari uppbyggingu þessarar starfsemi með því að sérhæfa hana í samræmi við hlutverk og vægi sögustaða.``
    Þjóðminjar eru meðal verðmætustu menningargilda hverrar þjóðar. Þær veita innsýn í sögu þjóðarinnar, styrkja ímynd hennar jafnt inn á við sem út á við og styrkja samkennd þjóðarinnar. Gripir, sem hafa varðveislugildi fyrir Íslendinga sem þjóð, tengjast mjög gjarnan ákveðnum héruðum eða söguslóðum. Menningargildi þeirra og áhrifamáttur sem sýningargripa styrkist til mikilla muna þegar hægt er að koma því við með góðum móti að sýna þá á þeim stöðum sem tengjast þeim með beinum eða óbeinum hætti, ekki síst ef slíkir staðir eru samofnir meginköflum í sögu þjóðarinnar og eru því í reynd minnismerki um líf og starf hennar. Er í þessu tilliti fulltímabært að leita eftir leiðum til að efla söfn þjóðlegra minja á sögustöðum og styrkja þannig menningarlega áfangastaði þar sem aðstæður leyfa.
    Það einkennir mjög íslenskar minjar um liðna tíð hve lítið er þar um byggingar. Ræður þar mestu að varanlegt byggingarefni var illfinnanlegt innan lands og byggingar því forgengilegri hér á landi en víða annars staðar í Evrópu. Byggingar þær sem enn standa og hafa þjóðsögulegt gildi eru því allar fremur ungar á alþjóðlegan mælikvarða. Hóladómkirkja er þannig á alþjóðlegan mælikvarða frekar ung bygging en á íslenskan mælikverða er hún ein merkasta bygging sem er minnisvarði um sögu þjóðarinnar.
    Á undangengnum árum og áratugum hefur verið unnið mikið endurreisnarstarf að Hólum á sviði skóla-, kirkju- og menningarmála. Starf Bændaskólans að Hólum hefur eflst og mikil uppbygging orðið á staðnum sem tengist skólanum. Prestar Hólastiftis hafa mjög látið sig varða endurreisn biskupsstóls á Hólum og Skagfirðingar jafnan haft mikinn metnað fyrir hönd Hóla. Hefur vígslubiskupsembættið nú verið

bundið Hólastað með lögum. Hólanefnd sú, sem skipuð var 1987, hefur á undanförnum árum haft umsjón með gagngerum endurbótum á Hóladómkirkju og umhverfi hennar. Hefur það starf tekist hið besta að mínu mati. Kirkjan er frá sögu-, menningar- og byggingarfræðilegu sjónarhorni séð merkasta kirkjubygging sem þjóðin á. Prýða hana nú þegar allmargir mjög merkir safngripir. Á staðnum er einnig gamall bær frá 19. öld og vinnur Þjóðminjasafn Íslands nú að endurbyggingu hans.
    Á Íslandi er fornminjum víða mikill sómi sýndur og hafa sveitarstjórnir lagt þessum málaflokki lofsvert lið. Allmikið ber þó á því, að minni hyggju, að þessi söfn séu innbyrðis lík að uppbyggingu og ekki hefur verið hugað nægilega að því þar sem þess er kostur að þau gengdu hlutverki sem hefði þjóðlegt gildi fremur en vera bundið við hérað. Leita þarf því leiða til sundurgreiningar og sérhæfingar á þessum söfnum annars vegar og hugsanlega hlutverks einstakra landshluta í vörslu þjóðminja á hinn bóginn.
    Meðal þeirra rúmlega 50 minjasafna eða safnígilda, sem starfrækt eru hér á landi, hafa nokkur söfn farið út á braut sérhæfingar. Ég vil í þessu tilliti nefna sérstaklega Nesstofu, sem er raunar deild í Þjóðminjasafninu, en þar er nú hýst lækningaminjasafn. Þá ber að geta þess að Sjóminjasafn Íslands í Hafnarfirði er nýlega orðið deild í Þjóðminjasafninu og má því segja að innan safnsins séu þessi mál í deiglunni nú og því réttur tími til að impra á hugmyndum er varða þróun vörslu þjóðminja á Íslandi.
    Þess ber einnig að geta að á meðal þessara rúmlega 50 safna hafa nokkur söfn haft forgöngu um að marka sér sérstakt hlutverk. Ég nefni hér sem dæmi um athyglisvert frumkvæði í þessum efnum minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti. Ég vil einnig geta þess að á svipuðum grundvelli og þessi þáltill. er flutt má nefna safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Það er sérhæft safn sem tengist mjög verulega sögu þjóðarinnar og þeim söguslóðum. Ég vil einnig nefna sem athyglisverða nýjung í safnamálum á Íslandi síldarminjasafnið á Siglufirði sem laðar að sér marga ferðamenn og er orðinn merkur áfangastaður í ferðaþjónustu. Sem dæmi um sérhæft safn á Norðurlandi má einnig nefna Nonnahús sem kallar til sín fjölmarga innlenda og ekki síður erlenda ferðamenn. Þannig er þessi þróun hafin og ástæða til að ýta undir hana. Það sem ég vil sérstaklega taka fram er að ástæða er til þess að söfn á landsbyggðinni fái sérstöku hlutverki að gegna í sambandi við vörslu þjóðlegra minja.
    Þáltill. sú sem hér er mælt fyrir tengist þróun ferðamála með mjög beinum hætti. Tillagan miðar að því að efla Hóla sem áningarstað fyrir Íslendinga, jafnt þá sem ferðast um landið sér til hvíldar og afþreyingar frá amstri hversdagsins sem og hinna sem láta forvitni og fróðleiksfýsn um hagi landsins og sögu vísa sér veg. Er ekki síst gert ráð fyrir því að safn þjóðminja að Hólum dragi þannig að skólafólk á ýmsum aldri í skipulögðum námsferðum.
    Það er samdóma álit þeirra sem reynslu hafa af ferðamálum og þekkingu á því sviði að beinasta leiðin til eflingar ferðaþjónustu almennt sé að leita fyrir sér á heimamarkaði. Erlendir ferðamenn leita síðan í þann farveg sem þjónusta við ferðamenn hefur markað. Hólar sem safn þjóðlegra minja, er vörpuðu sérstöku ljósi á íslenska kirkjusögu, yrðu varða á braut ferðamanna, innlendra sem erlendra, um landið. Slíkum höfuðáfangastöðum á að koma upp víðar og styrkja þannig uppbyggingu ferðaþjónustu um land allt.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir að ríkisstjórninni sé falið að undirbúa stofnun þjóðminjasafns að Hólum er verði helgað íslenskri kirkjusögu. Er það gert með tvennt í huga. Annars vegar hefur ríkisstjórn Íslands tekið sameiginlega ákvarðanir sem hafa skipt sköpum um endurreisn Hóla og Hóladómkirkju. Í öðru lagi ber að taka tillit til þess að það mál sem hér er flutt tengist þremur ráðuneytum: kirkjumrn. að því er varðar málefni Hóladómkirkju, landbrn. að því er varðar staðarhald og bændaskóla en menntmrn. að því er þjóðminjar varðar.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri en vísa að öðru leyti til þeirrar greinargerðar sem fylgir þessari tillögu til þál. Ég geri það að tillögu minni að að lokinni fyrri umræðu verði tillögunni vísað til seinni umræðu og hv. menntmn. Alþingis.