Fréttamaður Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 11:37:04 (1482)

     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. á þskj. 149 um fréttastofu Ríkisútvarpsins á Vesturlandi. Flm. með mér eru Jóhann Ársælsson, Guðjón Guðmundsson og Sturla Böðvarsson.
    Með leyfi forseta er tillagan svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á menntmrh. að hlutast til um að Ríkisútvarpið ráði til starfa fréttamann til öflunar frétta fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins og úrvinnslu á fréttatengdu efni frá Vesturlandi fyrir báðar rásir hljóðvarps og sjónvarp. Fréttamaðurinn starfi með fréttariturum útvarps og sjónvarps á Vesturlandi þegar því verður við komið.``
    Í grg. segir:
    ,,Tillaga þessi var flutt á 115. löggjafarþingi en fékkst ekki afgreidd. Er hún því endurflutt nú nánast óbreytt.
    Í útvarpi allra landsmanna gera menn kröfu til að njóta svipaðrar þjónustu og hlustunarskilyrða hvar sem þeir búa á landinu. Í ár eru liðin 11 ár frá því að svæðisútvarp á Akureyri tók til starfa og síðan hefur bæst við svæðisútvarp á Austfjörðum og Vestfjörðum.
    Enginn vafi leikur á að með tilkomu svæðisútvarps í þessum landshlutum tengjast byggðir betur innbyrðis auk þess sem dagskrárgerðin verður fjölbreyttari og höfðar betur til hlustenda víðs vegar um landið með landshlutatengdu efni. Enn fremur eykur það skilning landsmanna á því hvað er að gerast á landinu öllu.
    Svæðisútvarp á vegum Ríkisútvarpsins, sem er nú starfrækt á Vestfjörðum, Austfjörðum og Akureyri, hefur fyrir löngu sannað ágæti sitt. Það fyllir út í aðaldagskrá Ríkisútvarpsins, bæði með almennu útvarpsefni, fréttum eða fréttatengdum þáttum. Á því er enginn vafi að landshlutatengt efni frá svæðisútvarpsstöðvunum bætir mjög dagskrá útvarpsins.
    Í þeim landshlutum, sem ekki hafa enn notið þessarar þjónustu eða aðstöðu til að bæta dagskrána, finnst notendum Ríkisútvarpsins þeir vera nokkuð afskiptir. Á þessu þyrfti að verða breyting. Menntmrh. hefur lýst því yfir á Alþingi að ekki sé fyrirhugað að fjölga svæðisútvarpsstöðvum í bráð vegna fjárskorts þótt það sé á stefnuskrá Ríkisútvarpsins. Í staðinn þyrfti að ná því marki í minni áföngum. Fyrir Vesturland, sem hefur verið afskipt á þessu sviði, væri það nokkur áfangi ef Ríkisútvarpið réði til starfa fréttamann með búsetu og starfsaðstöðu í landshlutanum sem annaðist öflun frétta og úrvinnslu á fréttatengdu efni frá Vesturlandi fyrir báðar rásir hljóðvarps. Fréttaritarar útvarps og sjónvarps á svæðinu hafa misjafna aðstöðu til að leggja vinnu í fréttaöflun, fréttamaður útvarpsins þar gæti aðstoðað þá og því ekki aðeins bætt tengsl útvarpsins við Vesturland með beinni fréttamennsku heldur einnig styrkt þá starfsemi útvarpsins sem þegar er fyrir hendi.
    Íbúar á Vesturlandi telja sig eiga rétt á því að fá svipaða þjónustu frá Ríkisútvarpinu og íbúar annarra landshluta. Á meðan vinnsla frétta og dagskrárefnis er ekki svipuð í öllum landshlutum skortir nokkuð á að aðstaða landsmanna í þessu efni sé jöfn.``
    Virðulegi forseti. Þessi tillaga um fréttamann Ríkisútvarpsins á Vesturlandi er ekki fjárfrek tillaga. Vonast ég því til að hún verði litin jákvæðum augum og fái hraða meðferð í hv. menntmn. en það er tillaga mín að vísa henni þangað að lokinni umræðu um hana.