Fréttamaður Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 11:43:08 (1484)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér aftur til að lýsa yfir stuðningi við tillögu sem hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir er 1. flm. að. Það ætti að vera sjálfsagt mál að allir landsmenn njóti svipaðrar þjónustu Ríkisútvarpsins hvar sem er á landinu. Eins og fram kom hjá hv. 1. flm. er svæðisútvarp með föstu starfsfólki starfandi á Vestfjörðum, Austfjörðum og Norðurlandi. Vesturland, Reykjanes og Suðurland njóta hins vegar ekki þessarar þjónustu. Ég hef lagt fram svipaða tillögu um fastráðningu fréttamanns og svæðisútvarp á Suðurlandi sem nú þegar hefur verið afgreidd til hv. menntmn. þar sem ég reikna með að þessar tillögur verða ræddar saman. Allir landsmenn greiða sömu afnotagjöld fyrir þjónustu Ríkisútvarps og sjónvarps og eiga því rétt á sömu þjónustunni og því ætti maður að geta átt von á að hv. þm. styðji framgang þessara tillagna.