Íbúðaverð á landsbyggðinni

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 12:13:07 (1492)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Mér hefur verið innrætt mikil virðing fyrir rauðum ljósum og þess vegna þagnaði ég um leið og það kviknaði en það mun hafa verið misskilningur að ræðutíma mínum væri lokið.
    Það sem ég ætlaði að segja var að það má auðvitað velta ýmsu fyrir sér í sambandi við fasteignaskatta til sveitarfélaganna sem kom fram í ræðu hv. 6. þm. Vestf. Ég vil bara segja það að ég tel eðlilegt að líta á fasteignagjöld til sveitarfélaganna öðrum augum en þeim að þar sé fyrst og fremst verið að endurspegla verðmæti bygginganna. Þar er um að ræða gjöld til sveitarfélaganna vegna ýmiss rekstrar og ég tel eðlilegt að þau séu fyrst og fremst miðuð við eignirnar sjálfar, stærð þeirra og þann kostnað sem sveitarfélögin hafa af því að reka sína starfsemi og þess vegna sé út af fyrir sig kannski réttara að hafa þarna jafnari viðmiðanir en þær að taka tillit til söluverðs húsa á viðkomandi svæði. Ég er ekki á þeirri skoðun að það eigi að gera.
    Ég er aftur á móti á þeirri skoðun að þau vandamál sem myndast vegna fasteignamatsins og viðskipta fólks t.d. við almenna húsnæðiskerfið séu það mikil að þar þurfi að taka alveg sérstaklega á. Ég veit mörg dæmi þess að fólk á í erfiðleikum vegna þess að fasteignamat húsanna er miklu lægra og þau hafa þá ekki sams konar veðhæfni og eignir annars staðar á landinu. Víða um landið er það lágt húsaverð að fólk á í vandræðum með að fá lán. Það er vandamál sem ég tel að þurfi með einhverjum hætti að vera hægt að taka á, a.m.k. meðan þetta ástand varir.
    Auðvitað er, eins og ég sagði áðan, aðalatriði að reyna að skapa einhvers konar jafnrétti í landinu gagnvart framfærslunni. Það mun örugglega hafa mikil áhrif ef það tækist að jafna þá grunnþætti sem eru hvað dýrastir hjá hverjum einstaklingi eða fjölskyldu í framfærslunni. Þar fyrir utan tel ég ástæðu til að velta því fyrir sér hvort t.d. bankakerfið eða Húsnæðisstofnun geti ekki með einhverjum hætti rýmkað um þær hömlur sem eru og minnkað það tillit sem tekið er til mismunandi fasteignamats á svæðum. Mér finnst að þar sé um að ræða það mikið borð fyrir báru. Þegar talað er um venjulegt íbúðarhúsnæði hafa menn verið með þá viðmiðun að ekki mætti lána meira heldur en 50% af fasteignamati hússins. Þetta hafa sumir bankar haft sem viðmiðun og þetta hefur sett fólk í alveg óskaplega erfiðleika þar sem ég þekki til.
    Mér finnst að það mætti vera hluti af þessari athugun sem ég fagna. Ég fagna þessu máli og því frumkvæði sem hér er og því að umræðan um þessi mál skuli vera vakin upp með þessum hætti og ætla að láta það verða mín lokaorð.