Málefni aldraðra

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 12:21:59 (1494)

     Flm. (Gunnar Birgisson) :
    Frú forseti. Meðflm. minn á þessu frv. til laga um breytingu á lögum um aldraða er Sigríður Anna Þórðardóttir. Markmiðið með breytingunni er að gera úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra markvissari en þær eru í dag og taka tillit til mannfjölda byggðarlaga.
    Skv. 1. gr. frv. orðist 2. mgr. 3. gr. laganna um Framkvæmdasjóð aldraðra svo:
    ,,Í nefndinni eiga sæti fjórir menn, einn tilnefndur af Öldrunarráði Íslands, tveir tilnefndir af Sambandi ísl. sveitarfélaga og einn tilnefndur af heilbrrh. og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ef atkvæði falla jöfn í stjórninni ræður atkvæði formanns úrslitum.``
    2. gr.:
  ,,a. 2. mgr. 11. gr. lagana orðast svo:
    Sjóðstjórn úthlutar árlega fé úr sjóðnum samkvæmt ákvæðum 3. mgr.
    b. Við 11. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Úthluta skal 9 / 10 hlutum þess fjármagns, sem kemur í sjóðinn úr hverju kjördæmi, til verkefna í kjördæminu, sbr. 12. gr. Því sem eftir stendur skal úthluta sérstaklega til verkefna utan höfuðborgarsvæðisins.
    3. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í grg. með frv. segir: ,,Þjónusta við aldraða mun aukast í náinni framtíð þar sem meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi. Byggingu þjónustukjarna og hjúkrunarheimila mun fjölga. Framkvæmdir hafa að hluta verið kostaðar með styrkjum úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Tekjur framkvæmdasjóðsins eru nefskattur á einstaklinga í landinu, 70 ára og yngri. Því er eðlilegt að framlög úr sjóðnum skiptist nokkurn veginn eftir fólksfjölda í hverju kjördæmi.
    Séu úthlutanir sjóðsins frá stofnun hans skoðaðar sést að Reykjaneskjördæmi hefur farið mjög halloka í úthlutunum úr sjóðnum. Einungis hefur verið úthlutað 16,11% til Reykjaness en í kjördæminu eru 25,11% landsmanna. Fjármunirnir hafa runnið til landsbyggðarinnar, t.d. til Norðurlands vestra, en þangað hafa 9,33% af fé sjóðsins farið en íbúar þar eru einungis 3,99% af landsmönnum.
    Frv. þetta er sett fram með það í huga að sem sanngjörnust skipting verði á fjármunum sjóðsins.
    Uppbygging á þjónusturýmum og hjúkrunarrýmum er vel á veg komin á landsbyggðinni en staðan í þessum málum á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega þó á Reykjanesi, er sú að mikið verk er óunnið í málefnum aldraðra. Uppbygging þjónusturýma eru grundvöllur þess að mögulegt sé að veita öldruðum daglega þjónustu, þó svo að þeir búi í eigin húsnæði. Samkvæmt frv. er áætlað að verja einum tíunda hluta tekna sjóðsins sérstaklega til verkefna utan höfuðborgarsvæðisins.``
    Rétt til að bæta við þetta, þá hlýtur það að vera hagsmunamál heilbrigðiskerfisins og okkar allra

að aldraðir geti búið sem lengst í eigin húsnæði með uppbyggingu þjónusturýma. Þar sem þjónusta er fyrir hendi t.d. föndur, böð, snyrting, hárgreiðsla og annað geta aldraðir búið lengur í heimahúsum en staðan er í dag.
    Að lokum legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr og til hv. heilbr.- og trn.