Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 14:31:27 (1504)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Fáein orð í viðbót. Ég hafði ekki lokið að fullu því sem ég ætlaði að koma til skila.
    Ég sagði það og vil endurtaka að ég sé ástæðu til þess að hvetja stjórnarþingmenn sem hafa svona mikinn áhuga á að ná fram lækkun á orkuverði til þess að snúa sér að sinni ríkisstjórn og leiða hana af villu síns vegar. Það sem stjórn Rafmagnsveitnanna var gerð grein fyrir af fulltrúum iðnrn. þann 17. sept. í sambandi við fjárlögin var að B-hluta ríkisfyrirtæki tækju að sér lífeyrisskuldbindingar að fullu vegna eigin starfsmanna, að ríkisfyrirtæki greiði arð í ríkissjóð sem verði hlutfall af eigin fé, 2%, að hætt verði að endurgreiða innskatt þegar um er að ræða virðisaukaskatt af frjálsri sölu. Það hefur farið fram athugun á því hvað þetta mundi hafa í för með sér. Þetta mundi hafa í för með sér, ef kæmi fram í orkusölutöxtunum, 38--43 þús. kr. hækkun á orkuverði til meðalfjölskyldu. Það er hvorki meira né minna sem er á ferðinni. Ég tel að það sé full ástæða til að benda á þetta hér og óska eftir því að hæstv. iðnrh., sem er staddur hér og hlýðir á umræðuna, upplýsi okkur um að hvort þessar fyrirætlanir séu óbreyttar og hvort ekki þurfi að kjósa nefnd til að fara ofan í saumana á þessum tillögum og skoða þær nánar því að þær munu auðsjáanlega hafa miklu meiri áhrif á orkuverðið á næstunni en sú nefnd sem verið er að leggja til að verði sett á stofn.