Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 14:42:48 (1509)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Við þyrftum að taka okkur tíma til þess við hentugleika, við hv. þm. Páll Pétursson, og fara yfir málsskjöl frá þessum árum. Ég væri reiðubúinn til þess og held að ég hafi flest í huga sem þá gerðist. Ég man m.a. eftir fjölda funda, líklega hátt í 100 talsins, með undirnefnd vegna þessara virkjunarmála þar sem m.a. áttu sæti tveir þáv. samráðherrar mínir, þar á meðal þáv. hæstv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, og þáv. fjmrh., Ragnar Arnalds, og reyndar þriðji ráðherrann sem einnig var frá stjórnarflokkum. Þessir ágætu þingmenn og ráðherrar áttu þátt í því að marka þá stefnu sem og fylgja eftir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hafði sett sér í málefnasamningi. Að lokum var um það fullt sammæli að taka þá ákvörðun sem tekin var af meiri hluta Alþingis, þar á meðal af þorra þingmanna, um virkjanaröð og ákvarðanir um virkjanaundirbúning og að hefja undirbúning að virkjun Blöndu á þessum árum. Í ræðum manna var annað að heyra en að of geyst væri farið. Ef menn vilja rifja það upp ættu þeir að lesa þingtíðindin frá þessum árum og athuga hvort þeir telja að þáv. iðnrh. hafið farið offari. Um hlut Landsvirkjunar er síðan auðvelt að ganga úr skugga. Hún vildi ekki aðeins Blönduvirkjun. Hún vildi áður fá af brýnni nauðsyn Búrfellsvirkjun II án þess að hnika til gangsetningu Blönduvirkjunar 1988. Þá var þar komin millivirkjun 1985 og raunar knúði Landsvirkjun fram gegn mínum ráðum byggingu Sultartangavirkjunar á árunum 1982 og 1983, að mig minnir, með ærnu fjármagni. Það var vissulega öryggisatriði fyrir Búrfellsvirkjun en jók jafnframt orkuvinnslu í kerfinu umtalsvert.