Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 14:49:09 (1513)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Það er verið að athuga þetta og athuga hitt. Það var inntakið í ræðu hæstv. iðnrh. Hvað ætli sé búið að athuga það í mörg ár að selja raforku til skipa? Ég held að það hljóti að vera tveir áratugir og enn er það ekki gert. Þau verða að brenna olíu í ljósavél sinni þegar þau liggja nokkra faðma frá rafmagninu í landi. (Gripið fram í.) Jú, ég hlustaði á ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. en það breytir þessu ekki. Hlutirnir gerast ekki samt þótt hann sé þar. Kannski lagast það eitthvað á næstunni.
    Ég hef líka haft tækifæri til að kynna mér það sem svokölluð markaðsskrifstofa er að gera. Hún er ekki að gera neitt. Þetta öfluga og ríka fyrirtæki ætti vitanlega að hafa menn í sinni þjónustu sem leita allra leiða til að selja raforkuna.
    Ég geri enga athugasemd við virkjun Blöndu, ég held að það hafi ekki verið óskynsamleg ákvörðun, en hitt er náttúrlega fáránlegt að virkja Blöndu og geta svo ekki selt raforkuna og þó notum við olíu til fjölmargra hluta. Hæstv. iðnrh. veit mætavel og hefur tekið þátt í því aftur og aftur að það hefur orðið að snúa ansi mikið upp á höndina á forustumönnum Landsvirkjunar til að fá þá til að gera ýmsa skynsamlega hluti, t.d. að lækka raforkuverð til húshitunar. Hvað ætli hafi orðið að þrýsta mikið á þá til að fá þá til að gera slíkt? Við höfum tekið þátt í því hvað eftir annað. Þetta öfluga fyrirtæki, þetta auðuga fyrirtæki á vitanlega að vera í forustu og kenna mönnum að nota raforkuna sem skynsamlegast. Af hverju ekki að hafa t.d. ráðgjöf fyrir fiskvinnslufyrirtækin um það hvernig þau geti nýtt raforkuna sem jafnast og fengið hana á sem lægstu verði? Ég kannast ekki við að nokkur minnsta tilraun sé gerð til slíks. Þegar samdráttur er í þjóðfélaginu segir Landsvirkjun upp tæknimönnum í gríð og erg í staðinn fyrir að hefja nýja sókn og reyna að byggja upp. Ég hef líka talað við verkfræðinga sem hafa leitt rök að því að ýmsar þær hugmyndir sem á hefur verið byggt um virkjanir séu alls ekki nægjanlega vel skoðaðar. Ég heyrði í fréttum fyrir nokkrum dögum að nú er komin upp ný hugmynd um virkjun í Skagafirðinum sem er sögð vera langtum hagkvæmari en áður hefur verið talið. Það kemur einhvern veginn af tilviljun. Einhverjir glöggir verkfræðingar setjast yfir kort og skoða það og benda á það að nýjar leiðir mættu vera betri.
    Það sem ég er að gagnrýna er þessi afturhaldssemi og íhaldssemi hjá Landsvirkjun að hafa ekki forustu um það að koma raforku til notenda á sem allra flestum sviðum hér á landi og þau eru mjög mörg þau svið þar sem raforku má nota með hagkvæmum hætti. Ég tek undir með 1. flm. að afskriftartími Landsvirkjunar er allt of stuttur. Hvað ætli sé oft búið að ræða það við Landsvirkjun að þennan tíma þurfi að lengja? Hann hefur að vísu fengist aðeins lengdur. En erlendis er algengt að afskrifa vatnsaflsvirkjanir á 40--50 árum. Þetta veit ég að hæstv. iðnrh. þekkir vel. Af hverju er talið nauðsynlegt að þessi kynslóð greiði þessar virkjanir? Af hverju má ekki greiða þær á lengri tíma og veita lægra raforkuverð? Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. framsögumanni.