Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:05:18 (1518)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það er mikill misskilningur sem kom fram í ræðu hv. 1. flm., Sturlu Böðvarssonar. Ég er aldeilis tilbúinn til breytinga og ég skil ekki hvernig hann hefur getað skilið ræðu mína svo að ég væri það ekki. Ég ræð hins vegar ekki einn við það að breyta þessum hlutum. Ég þarf stuðning flokksbræðra, a.m.k. einhverra flokksbræðra hv. þm. í stjórn Landsvirkjunar en þar hafa þeir, eins og ég hef áður getið um, meiri hluta.
    Það dugir ekki einföld stjórnarsamþykkt Landsvirkjunar heldur verður að koma til samstarf við dreifiveiturnar til þess að mögulegt sé að koma hugsanlegum afslætti eða hugsanlegri aukanotkun til viðkomenda. Það er þar sem hnúturinn er, ekki fyrst og fremst hjá Landsvirkjun. Skipulagið er ekki gott ef það væri Landsvirkjun sem seldi beint til notenda. Ef þetta væri eitt fyrirtæki væri einfalt að leysa þetta í stjórn Landsvirkjunar.
    Ég upplýsti nokkrar staðreyndir málsins sem hv. þm. hefur kannski ekki þolað að heyra og talið til málsbóta fyrir Landsvirkjun. Endurgreiðslutíminn er ekki um aldamót heldur verður Landsvirkjun að óbreyttu skuldlaus eftir 20--30 ár. Það getur vel verið að það sé of skammur tími. Það fer eftir því hvað við virkjum hratt og eftir því hver þróunin verður. Ég er alveg tilbúinn að skoða það að lengja þennan endurgreiðslutíma.
    Ég vakti líka athygli á því að síðan 1984 hefur raunlækkun á rafmagninu verið 40%. Ég vakti líka athygli á því að Landsvirkjun selur rafmagn á sama verði á sömu spennu hvar sem er á landinu. Ég tek ekki allt trúanlegt eða án fyrirvara sem kemur frá reiknimeisturum Landsvirkjunar. Reiknimeistarar Landsvirkjunar reikna sjálfsagt rétt en það má endurskoða og draga í efa sumar þær forsendur sem þeir gefa sér. Ég er tilbúinn að skoða tillöguna í iðnn.