Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:07:48 (1519)

     Flm. (Sturla Böðvarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna þeim breytta tóni sem hefur orðið hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. og er mjög ánægður með að hann skuli taka svo mjög undir það sem í raun kemur fram í þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Í fyrri ræðu hans eða einni af ræðum hans í dag kom fram að hann teldi að það væri ekki á valdi Landsvirkjunar einnar að lækka raforkuverð. Það er út af fyrir sig alveg hárrétt hjá þingmanninum. Það er ekki einungis á valdi Landsvirkjunar eða stjórnar Landsvirkjunar. Ég tel að það sé afskaplega stór þáttur sem Landsvirkjun á í verði raforkunnar og ég tel að það sé afar mikilvægt að gott samstarf náist á milli dreifiveitnanna og stjórnenda Landsvirkjunar um átak, bæði í því að selja raforkuna og auka þar með tekjurnar og einnig við að draga úr kostnaði og leita allra leiða til þess að hagræða og draga úr rekstrarkostnaði orkufyrirtækjanna í landinu.
    Ég held að orkufyrirtækin hafi leitað leiða til að draga úr kostnaði á undanförnum árum en ég er jafnsannfærður um að það má betur gera, bæði hjá Landsvirkjun, sem er mjög öflugt fyrirtæki, og einnig hjá dreifiveitunum. Ég vona svo sannarlega og vænti þess að hv. þm. Páll Pétursson taki þátt í því með öðrum að stuðla að lækkun á raforkuverði til dreifiveitnanna svo bæði þeir sem mesta raforku nota til húshitunar og annarra heimilsnota og ekki síður atvinnufyrirtækin hafi nokkurn hag af því.