Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:11:19 (1521)

     Flm. (Sturla Böðvarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil bara að lokum segja varðandi það sem fram kom hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að ég tel að Landsvirkjun eigi og hafi afl og getu til þess að standa í fararbroddi fyrir því að auka raforkusölu og koma raforkunni til enn fleiri aðila og enn fleiri notenda en eru í dag. Dreifiveiturnar hafa af því mikinn hag að nýta betur dreifikerfið, bæði til sveita og einnig og ekki síður í sjávarbyggðunum um allt land. Þess vegna held ég að það sé óhætt að gera þá kröfu til stjórnenda Landsvirkjunar að þeir gangi í fararbroddi við það að selja orkuna, ekki síst til sjávarútvegsfyrirtækjanna, bæði fiskvinnslufyrirtækjanna og útgerðanna. Ég er sannfærður um að það er stór markaður þar sem er sala á raforku til skipa og ég vænti þess að stjórn Landsvirkjunar komi mjög öflug þar inn.