Lánskjör og ávöxtun sparifjár

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:13:01 (1522)

     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Það var farið að nálgast vor þegar ég mælti fyrir þessu máli á sl. þingi í fimmta sinn, en nú mæli ég fyrir málinu í sjötta sinn. Hæstv. viðskrh. lýsti frv. á sl. vori sem vorboða og voru það ekki slæm meðmæli fannst mér ef þau væru meint í alvöru. Eitt það undursamlegasta sem skeður í náttúrunni er þegar vetur er að kveðja og vorið að ganga í garð. Mér fannst þetta vera góð lýsing á frv. mínu hjá hæstv. ráðherra og ég vona að hæstv. ráðherra finnist í alvöru eins og mér að vetur lánskjaravísitölunnar sé orðinn æði langur. Samkvæmt þessum ummælum hefði ráðherra átt að taka frv. mínu fagnandi. M.a. þess vegna flyt ég frv. enn og nú ásamt hv. 1. þm. Vestf.
    Þótt nú sé haust og tíðarfarið gott vantar vissulega vorboða í mörgu tilliti. Það vantar vorboða í vextina sem þetta frv. boðar. Það vantar vorboða í atvinnumálin. Það vantar vorboða gegn atvinnuleysinu. Það vantar vorboða í skipasmíðaiðnaðinn sem heyrir undir hæstv. ráðherra, ásamt peningamálunum. Já, það vantar víða vorboða í íslenskt þjóðlíf.
    Þessu næst vil ég vísa til grg. frv. sem er svohljóðandi:
    ,,Frv. þetta er hér flutt í sjötta sinn, nú með örfáum breytingum. Síðast var það flutt á 115. löggjafarþingi.
    Verðtrygging fjárskuldbindinga samkvæmt lánskjaravísitölu hefur þegar gengið sér til húðar, enda komið á daginn að atvinnuvegirnir bera hana ekki. Greiðslustöðvanir og gjaldþrot fyrirtækja, raunar einnig heimila, hafa farið hraðvaxandi. Áframhaldandi hrun og atvinnuleysi er fram undan ef ekki er gripið í taumana.
    Fyrirheit, sem gefin voru með verðtryggingu fjárskuldbindinga, um samdrátt útlána, minni erlendar lántökur og aukinn sparnað, hafa öll brugðist eins og hagskýrslur bera með sér.
    Lánskjaravísitalan er meiri verðbólguvaldur en aðrar vísitölur þar sem byggingarkostnaður er innifalinn, en hann er háður mestu sveiflum í hagkerfinu. Vinnulaun eru og reiknuð í vísitölunni en ein afleiðing þess er sú að sérhver kjarabót launþega er jafnharðan af þeim tekinn með sjálfkrafa hækkun skulda af íbúðalánum. Kaupgjaldsvísitalan hefur þegar verið afnumin með lögum og því ekki siðferðilega stætt á því að halda lánskjaravísitölunni. Afnám hinnar síðarnefndu var þess utan loforð ríkisstjórnar sem ekki er lengur unnt að víkjast undan, enda öll sett skilyrði fyrir hendi.
    Um 1. gr.: Þegar lög þessi öðlast gildi er gert ráð fyrir að viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar innlánsstofnanir, sem veita viðtöku fé til ávöxtunar, taki upp þá reglu sem viðgengst í öðrum vestrænum ríkjum, að greiða vaxtaauka á bundin spariinnlán til eins árs eða lengur ef gildandi vextir eru lægri en nemur verðbólgu. Útgjöld vegna vaxtaaukans eru þá fjármögnuð með fé sem inn kemur við vaxtalækkun á hlaupareikningum, ávísanareikningum og almennum sparisjóðsbókum er notast sem viðskiptareikningar. Talið er af sérfræðingum í banka- og peningamálum að 90--95% af rekstrarkostnaðar í viðskiptabanka fari í að þjónusta þessa reikninga og fyrir þá þjónustu ber eigendum þeirra að greiða með lágum vöxtum af slíkum innlánum.
    Langtímaútlán verða hins vegar samkvæmt viðtekinni reglu erlendis háð breytilegum vöxtum. Er þá ýmist heimilt að breyta vaxtaprósentunni innan ákveðinna marka eða binda hana í t.d. þrjú ár og láta hana síðan fylgja gildandi vöxtum á hverjum tíma.
    Verðtrygging fjárskuldbindinga er ekki lengur við lýði í viðskiptalöndum okkar sem við erum að aðlagast. Þau ríki, sem reyndu verðtryggingu (Finnland, Ísrael og að takmörkuðu leyti Bretland og Svíþjóð), hafa hætt henni. Enginn grundvöllur er því lengur fyrir verðtryggingu hér. Það knýr á um afnám hennar að ekki eru lengur ,,rauð strik`` í kjarasamningum. Við getum ekki varið það að verðtryggja skuldir en ekki kaupgjald láglaunafólksins sem á að borga skuldirnar.
    Ísland hefur ekki efni á að raska því jafnvægi í kjaramálum og verðlagi sem náðist með þjóðarsátt. Atvinnuvegirnir þola ekki nýja vaxtaskrúfu af völdum lánskjaravísitölu eins og þá er varð 1982--1990 þegar skuldauppsöfnunin náði 100 milljörðum kr. hjá útgerð og fiskvinnslu. Það er grunnorsök vandans í dag, ekki aflasamdráttur sem oft hefur verið meiri án þess að valda sambærilegum erfiðleikum.
    Það er út í hött að gera verðtryggingu frjálsa að vali lánveitenda og lántakenda. Hinir fyrrnefndu ráða ferðinni þannig að verðtryggingin yrði í reynd áfram lögþvinguð.``
    Eins og kemur fram í greinargerð skýrir frv. sig að mestu sjálft en ég ætla að leyfa mér að víkja nokkrum orðum að ræðum hæstv. viðskrh., Jóns Sigurðssonar, þegar frv. var lagt fram síðast. Það er stutt síðan og tókst ekki þá að ljúka umræðunni. Ég tel einmitt núna lag að hætta verðtryggingu fjárskuldbindinga til að komast hjá endurteknum skakkaföllum. Ráðherra vill ríghalda í kerfið og gera það lögþvingað ef lánveitandi krefst verðtryggingar. Utan þessarar yfirlýsingar hans í svarræðu hans sl. vor virtist mér hún vera innihaldslítil fyrir utan vorboðann. Það skiptir t.d. ekki máli hvort við tölum um afnám verðtryggingar eða afnám vísitölunnar sem mælir hana þegar markmiðið er eitt og hið sama.
    Ekki er heldur þörf á að ræða framfærsluvísitölu og byggingarvísitölu þegar báðar eru innifaldar í lánskjaravísitölu. Þetta er bara orðaleikur ráðherrans sem skilar ekki neinu. Ráðherrann kveðst ekki átta

sig á því hvers vegna ég mæli með vísitölu vöru og þjónustu ef verðtrygging er á annað borð viðhöfð. Það er af því að sú vísitala er háð minni sveiflum en t.d. byggingarvísitala, enda notuð erlendis. Snöggar breytingar á vöxtum eru skaðlegar atvinnulífinu. Það ætti ráðherrann að vita.
    Varðandi spariskírteini ríkissjóðs er það að segja að langtímahefð er komin á verðtryggingu þeirra. Því lét ég mér til hugar koma að halda henni einnig fyrst um sinn en enginn grundvöllur er fyrir því lengur. Verðtrygging spariskírteina mundi við ríkjandi aðstæður hafa þau ein áhrif að örva opinberar lántökur og auka halla á ríkissjóði sem þegar er miklu mun meiri en góðu hófi gegnir.
    Þess ber og að gæta að raunvexti af verðtryggðum lánum á að fastbinda við 2% á ári og í hæsta lagi við 3% á ári að mati hæfustu hagfræðinga, þeirra á meðal Nóbels-hagfræðinga, en þetta hefur komið fram í fjármálatíðindum. Þegar verðtryggingunni var komið á með Ólafslögum var talað um að 2% raunvextir væru eðlilegir en 4% væru okur. Orð þessa Nóbelshafa eru einmitt í samræmi við það.
    Vona ég að málin fari nú að skýrast fyrir hæstv. viðskrh. en eitthvað hefur í raun vafist fyrir honum samkvæmt ræðunni en öðrum atriðum í ræðu hans hafði ég þegar svarað í framsöguræðu minni sl. vor sem ráðherrann virtist svo viljandi eða óviljandi hafa leitt hjá sér.
    Verðtrygging fjárskuldbindinga hefur á sl. áratug valdið kreppu í landinu. Skuldauppsöfnunin sem komin er yfir 100 milljarða kr. hjá undirstöðuatvinnuvegunum, útgerð og fiskvinnslu, er meginorsök vandans í dag, ekki aflasamdrátturinn sem áður hefur verið meiri án þess að valda sambærilegum erfiðleikum.
    Á nefndu tímabili, 1982--1990, tvöfölduðust skuldir landsmanna að meðaltali nálega annað hvert ár. Annan viðlíka hrunadans þolir þjóðin ekki.
    Þá vil ég láta koma fram að það er ein mesta og sorglegsta þversögn í sögu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi að forustumennirnir á þeim vettvangi vilja margir ef ekki flestir verðtryggja skuldir en ekki vinnulaun þeirra sem borga eiga skuldirnar. Slíkt leiðir að sjálfsögðu til gjaldþrota eins og raunin hefur á orðið. Ekki aðeins hundruð heldur þúsundir launþega hafa misst húsnæðið ofan af sér. Sá er munurinn á óverðtryggðum lánum og verðtryggðum að hin fyrrnefndu lækka við hverja afborgun en verðtryggðu lánin hækka við hverja afborgun. Eftir nokkurn árafjölda koma svo greiðsluþrot.
    Margur segir að verðbólgan en ekki verðtrygging sé vandamálið. Vita menn ekki að þetta tvennt er nátengt? Vaxtahækkanirnar fara beint út í verðlagið. Um það er lýkur leiða þær til hruns. Óverðtryggð lán eru í byrjun þyngri en hin verðtryggðu sem flytja verðbótaþátt vaxta til seinni ára þar sem hann hleðst upp. En óverðtryggðu lánin má auðvelda með því að sleppa afborgunum og greiða aðeins vexti fyrstu 2--5 árin.
    Ýmsir hafa verið hrifnir af rauðum strikum. Þau hafa þó ekki tryggt kaupmátt launa svo sem ljóst er af nýlegum kjarasamningum. En ef þau eru nothæf í reynd má líka hafa rauð strik í lánasamningum, þ.e. hækka raunvexti ef verðbólga fer yfir visst mark. Slíkt er algengt og kallast breytilegir vextir. Sá kostur er mun skárri en verðtryggingargerræðið.
    Virðulegi forseti. Ég vil svo leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.