Lánskjör og ávöxtun sparifjár

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:24:45 (1523)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég kem bara upp til að lýsa yfir stuðningi við þetta frv. Ég sagði einhvern tíma við hv. flm. að þetta væri með bestu málum sem flutt hefðu verið á Alþingi. Ég gerði mér að vísu lengi vonir um að það næðist samkomulag um að afnema lánskjaravísitöluna og taldi reyndar í síðustu ríkisstjórn að það væri orðið. En framkvæmdin hefur ekki orðið sú. Og það væri út af fyrir sig afar gaman að vita hvernig menn hugsa sér að vera með verðtryggð lán þegar fjármagnsmarkaðurinn opnast um næstu áramót. Ætlum við þá einir þjóða á þessum sameiginlega fjármagnsmarkaði að vera með verðtryggð lán?
    Ég veit að svarið verður eflaust það að það skipti engu máli af því að verðbólgan er svo lítil. En við höfum út af fyrir sig enga tryggingu fyrir því að verðbólga geti ekki aukist og þá skapar sú staðreynd að við yrðum þá einir með verðtryggð lán óhemju möguleika til fjármálabrasks. Mætti að sjálfsögðu spila á slíkt kerfi af þeim sem fjármagnið hafa erlendis.
    Ég skal ekki lengja þetta. Ég styð þetta frv. Ég hef gefist upp við að gera mér vonir um að unnt sé að koma vitinu fyrir þá sem þessu ráða með góðu og ég held að Alþingi verði að taka þetta mál í sínar eigin hendur.