Hækkun farmgjalda skipafélaganna

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:52:31 (1534)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þær umræður sem hafa verið hér í dag virðast sneiða gersamlega hjá því að á undanförnum árum hefur tekist að lækka flutningskostnað mjög verulega hingað til landsins eða um 37% á sl. 7 árum sem er auðvitað mjög verulegt. Það er um 5% á ári. Á síðasta ári, ef við tökum tímann frá september til september, er um 10% lækkun á flutningsgjöldum að ræða hingað til landsins.
    Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. viðskrh. að það hefur verið mjög harkaleg samkeppni milli skipafélaganna, sérstaklega síðan í apríl. En hitt er líka alveg öldungis ljóst að Samskip, sem fór mjög myndarlega af stað í sambandi við strandsiglingar umhverfis landið eftir að Skipaútgerð ríkisins var lögð niður, en með henni hafði ríkissjóður borgað 1 millj. á dag á undanförnum áratugum, hefur ekki tekjur til þess að halda uppi því þjónustustigi. Það gefur auga leið að ef hugmynd okkar er sú að halda uppi sterkum og öruggum samgöngum með félögum okkar sjálfra þannig að íslenskar hendur komi að því verki, þá verða fyrirtækin sem að því standa auðvitað að standa undir sér.
    Mér þótti leiðinlegt að heyra það sem sérstakt markmið hjá formanni þingflokks Alþfl. að nauðsynlegt væri að setja hömlur við fákeppni. Og hann hélt áfram með því að segja að einungis þannig getum við séð til þess að ný erlend félög komi hingað. Það hefur raunar komið fram hjá fleiri þingmönnum að þeim finnist það sérstakt keppikefli að reyna að brjóta niður þær siglingar sem Íslendingar sjálfir hafa byggt upp hingað til landsins með því að reyna að stuðla að því að erlendir keppinautar komi hingað. Ég vil líka benda á annað. Skipafélögin hafa átt í erfiðleikum með að manna skip sín Íslendingum vegna þeirra miklu skattaívilnana sem sjómenn fá í nágrannalöndum okkar, svo ég taki Danmörku og Noreg sérstaklega sem dæmi, eða ýmis önnur lönd.
    Auðvitað er það lofsvert að það skuli hafa tekist að lækka farmgjöld til landsins um 35% sl. 7 ár. Auðvitað er það gæfulegt að á sl. einu ári hefur tekist að lækka farmgjöldin um 10%. Auðvitað hljótum við að búast við því að Eimskipafélagið og Samskip reyni til hins ýtrasta að koma í veg fyrir hækkun nú. En ég vil líka segja að ef milliliðirnir, ef verslunin hefði staðið sig jafn vel og skipafélögin og lækkað álagninguna hjá sér um 35% á þessum tíma eins og skipafélögin hafa gert væri kannski hægt að hrósa þeim milliliðunum sérstaklega. Ég er raunar þeirrar skoðunar að kaupmennirnir geti vel tekið á sig þá hækkun þó einhver verði á farmgjöldum til landsins.