Hækkun farmgjalda skipafélaganna

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:55:39 (1535)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það vakti mikla athygli þegar hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti því yfir að hún styddi aðild að Evrópsku efnahagssvæði. Það voru mikil tíðindi og ill. En nú hefur greinilega bæst í skarðið þar sem er hæstv. samgrh. Það eru slæm skipti að vísu en hann snýst öndverður gegn þeirri samkeppni skipafélaga sem hann er sjálfur að gera tillögu um á Alþingi með aðild að Evrópsku efnahagssvæði.
    Annars var málflutningur hans allur hinn sérkennilegasti satt best að segja. Þetta mál snýst ekki um það hvernig þessum hlutum hefur verið komið fyrir á undanförnum árum.
    Þetta snýst um það, hæstv. ráðherra og virðulegi forseti, að það er verið að tala um að sveitarfélög lækki sínar tekjur og tapi aðstöðugjaldi. Það er verið að skera niður heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Það er verið að tala um gjaldþrot í sjávarútvegi og sérstakar ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Það er verið að tala um atvinnuleysi 3.500 manna á Íslandi. Atvinnuleysið snertir 10 þúsund einstaklinga á Íslandi beint eða óbeint.
    Stjórnarandstöðuflokkar eru með hugmyndir um mjög róttækar aðgerðir í efnahagsmálum og það er bent á það að Alþýðusamband Íslands gengur fram fyrir skjöldu. Hvað gerist þá? Þá rís upp einn hæstv. ráðherra og tekur upp hanskann fyrir sjálftökuliðið á Íslandi og segir: Það má hækka fraktirnar. ( Gripið fram í: Tveir.) Og hæstv. viðskrh.
    Hér er auðvitað með þvílíkum ósköpum á hlutum haldið af þessari ríkisstjórn og ég segi: Ef þessi ríkisstjórn og stjórnarliðið ætlar að taka með svona loppnum hætti á þessu gengi mun hún ekki ráða við neinn vanda í efnahagsmálum. Það þýðir ekki fyrir ríkisstjórnina að ganga fram fyrir launafólk, sveitarfélög og fyrirtæki í sjávarútvegi og segja: Þið verðið að spara og hagræða --- ef hún líður Eimskipafélaginu það að hirða hundruð milljóna sem ætlunin er að taka með þessari sérstöku hækkun.
    Þess vegna hljótum við auðvitað, virðulegi forseti, að líta þannig á að hér sé um að ræða prófmál. Ræður ríkisstjórn Íslands við vandann eða ætlar hún að glúpna og kikna í hnjánum frammi fyrir sjálftökuliðinu? Er það svo að sá maður sem var fundarstjóri hjá Eimskipafélagi Íslands um skeið, núv. forsrh. Íslands, ráði ekki við þetta mál og beygi sig í knjánum frammi fyrir þessari kröfugerðarsveit sjálftökuliðsins á Íslandi?