Seta forsætisráðherra í borgarstjórn

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:36:24 (1542)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Eins og fsp. mín bar með sér tel ég að það sé með öllu óeðlilegt og raunar óviðeigandi að sami maður sé í þeim fötum sem hæstv. forsrh. hefur klæðst með því að gegna þessum tveimur embættum samtímis. Satt að segja er ég afar undrandi á því að hæstv. forsrh. skuli kjósa að vera í þeim sporum vegna þess að ég hygg að það geti ekki verið þægilegt fyrir hann að þjóna með þeim hætti tveimur herrum. Ég tel að það sé ekki sambærilegt þingmannsstarfið fyrir Reykjavík og forsætisráðherrastarfið annars vegar og hins vegar spurningin um að sitja í sveitarstjórn í kjördæminu. Ég trúi ekki öðru en hæstv. forsrh. endurskoði sinn gang í þessu efni fyrr en síðar.