Seta forsætisráðherra í borgarstjórn

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:37:52 (1543)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Það eru fjölmörg fordæmi þess að ráðherrar gegni embætti borgarfulltrúa í Reykjavík, bæði gömul og ný. Ég get nefnt tiltölulega nýleg fordæmi. Albert Guðmundsson var fjmrh. en jafnframt borgarfulltrúi í Reykjavík. Hann tók sér hlé um stund frá því starfi en ákvað síðan eftir nokkra reynslu að gerast borgarfulltrúi á nýjan leik. Gunnar Thoroddsen var borgarfulltrúi um nokkra hríð eftir að hann varð fjmrh. og gegndi meira að segja embætti forseta borgarstjórnar eftir að hann lét af starfi sem borgarstjóri og gerðist fjmrh.
    Ég hygg að ég geti farið enn aftar í tímann en þori ekki að gera það eftir minni. Ég verð að fletta því upp áður en ég held því fram með fullum fetum. En ég hygg að fordæmin séu til og hugsanlega hafi forsrh. áður jafnframt verið borgarfulltrúi.