Vinnubrögð í umhverfisráðuneyti

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:40:22 (1545)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. umhvrh. Það er vegna bréfs sem umhvrn. var sent úr Öxarfjarðarhreppi 27. apríl sl. Þar fer bóndi í Sandfellshaga fram á það við umhvrn. að fá leyfi til þess að skjóta grágæsir við kartöflugarða þar sem, eins og stendur hér, með leyfi forseta:
    ,,Önnur ráð virðast ekki duga til að fæla fuglana burt frá garðlöndunum. Grágæsirnar hirða útsæðið jafnharðan og það er sett niður, jafnvel þó notaðar séu vélar og sett niður til fullrar dýptar.``
    Þetta er skrifað 27. apríl sl. Síðan kemur svar frá ráðuneytinu dagsett 9. júní og sagt að ekki sé hægt að leyfa þetta vegna þess, eins og stendur orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin leggur til að leyfi af þessu tagi séu ekki veitt eftir 20. maí.``
    Með öðrum orðum, þann 9. júní er því svarað að ekki sé hægt að leyfa þetta eftir 20. maí. Erindið er sent þann 27. apríl.
    Ég spyr hæstv. umhvrh.: Eru þetta eðlileg vinnubrögð og er venjan að það taki þennan óratíma að svara bréfum í því ráðuneyti sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á?
    Það má bæta því við að þegar svarið barst í júní voru gæsirnar náttúrlega búnar með allt útsæðið í garðinum.