Hertar aðgerðir gegn skattsvikum

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:46:07 (1549)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :

    Virðulegi forseti. Sem svar við þessari fsp. vil ég geta þess að í fjmrn. hafa þessi mál verið til skoðunar að undanförnu. Reyndar er það svo að á hverju ári, í hverjum mánuði og í hverri viku eru ávallt aðgerðir til þess að koma í veg fyrir skattsvik. Síðasta aðgerðin sem fjmrn. greip til er að um næstu áramót verður skylt að hafa öðruvísi lituð númer á svokölluðum virðisaukaskattsbílum en það hefur komið í ljós, að áliti ráðuneytisins, að um not á bílum sé að ræða sem ekki má nota nema í atvinnurekstrarskyni.
    Þá vil ég enn fremur geta þess að í síðustu kjarasamningum var samið um það að fjmrn., fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, ásamt aðilum vinnumarkaðarins settu niður hóp manna til þess að vinna að tillögum um þetta efni og sú nefnd hefur nú hafið störf og mun ljúka þeim fyrir næstu áramót.
    Að öðru leyti vísa ég til þess að innheimtuárangur hefur heldur batnað hjá ríkinu að undanförnu og að að þessum málum er unnið frá einum degi til annars eins og eðlilegt er þegar um er að ræða svo mikilvægt mál að sköttum sé skilað eins og lög gera ráð fyrir.