Takmörkun og eftirlit með rjúpnaveiði

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:55:04 (1555)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. umhvrh. Það berast nú alvarlegar fréttir af ástandi rjúpnastofnsins sem virðist vera í lágmarki. Varpið misheppnaðist sl. vor vegna vetrarveðráttu sem skall yfir landið, ekki síst norðanvert landið, um Jónsmessuleytið. Það er fullyrt að mikill hluti af ungunum hafi drepist við þessar aðstæður.
    Það berast alvarlegar fréttir af fleiru. Minnihlutahópur skotveiðimanna gengur mjög frjálslega um veiðilendurnar alveg eins og villimenn, ferðast um á fjórhjólum með hríðskotabyssur. Þar er það massinn og fjöldinn sem drepinn er sem skiptir máli. Þessar aðferðir eiga ekkert skylt við veiðigleði. Þarna eru hreinir villimenn á ferð. Bændur grípa til veiðibanns á sínum heimalöndum. Þeir óttast að stofninn sé í útrýmingarhættu og ofbýður þessar veiðiaðferðir.
    Rjúpan hefur verið nytjafugl og með því skal mælt en við ríkjandi aðstæður vakna spurningar hvort ekki beri að minnka sóknina í stofninn, alla vega stöðva þessa bandóðu veiðimenn.
    Engar rannsóknir liggja fyrir á stofninum hin síðari ár. Menn eru að dútla við að kanna og rannsaka og telja spörfugla en ekki eru til upplýsingar um rjúpnastofninn. Þess vegna spyr ég hæstv. umhvrh. hvort hann muni beita sér fyrir aðgerðum til verndar blessaðri rjúpunni við þessar erfiðu og óvissu aðstæður. Mun hann t.d. þegar þessar upplýsingar liggja fyrir kalla til viðræðna við sig þá sérstöku nefnd sem ráðuneytinu er til aðstoðar um veiðar og friðun fugla?