Meðferð áfengissjúkra

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 14:02:38 (1559)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það eru á milli 20 og 30 aðilar sem hafa tekið að sér og starfrækja meðferð fyrir áfengissjúklinga og þá sem ánetjast hafa ólöglegum vímuefnum. Þessir aðilar hafa allir verið til skoðunar á vegum heilbrrn. og fengið styrk á vegum heilbrrn. til margra ára. Allir þessir aðilar uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til slíkrar meðferðar þó að engir tveir noti nákvæmlega sömu vinnubrögðin við þá starfsemi sem þeir starfrækja.
    Það stendur ekki til að afhenda trúarhópum einhverja meðferð sem þeir ráða ekki við. Margir af þessum aðilum hafa skilað mjög góðu starfi og ég tel ástæðulaust að vera að gera lítið úr góðum árangri margra þessara aðila í umræðum á Alþingi.