Meðferð áfengissjúkra

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 14:03:40 (1560)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar þá til þess að spyrja hæstv. heilbrrh. hvort hann viti ekki af þeirri faglegu gagnrýni sem hefur verið á vinnubrögð þar sem beitt er aðferðum trúarhópa. Ég veit að það má alltaf um það deila hvað telst til árangurs og hvað ekki. Ég veit líka að það eru margir aðilar í sjálfboðastarfi sem hafa unnið góð verk og hafa haft fullt og gott samráð við færa fagmenn og boðið upp á mjög fullnægjandi læknisfræðilega meðferð. Ég tel engu að síður þess virði að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum sé ekki ljóst að sumt af því sem flokkast hefur undir meðferð teljist ekki til góðra úrræða í slíkri meðferð. Ég vil vekja athygli á því að kirkjuþing og ýmsir innan geðheilbrigðiskerfisins hafa talið ástæðu til að hafa áhyggjur af þessari starfsemi.