Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 14:58:38 (1568)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða útkomuna úr fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar frá síðasta ári, svo langt sem það nær, þ.e. það á eftir að koma eitt frv. til viðbótar sem sýnir síðustu tölurnar í þessum fjárlögum. Eins og kom fram í máli hv. þm. áðan hafa fjárlög yfirstandandi árs engan veginn staðist og það er raunar búið að koma fram í umræðum um fjárlög fyrir árið 1993. Í stuttu máli gerir þetta það að verkum að gjöld umfram tekjur til viðbótar því sem áætlað hafði verið verða tæpir 5,4 milljarðar kr. en höfðu verið áætluð rúmir 4 milljarðar. Þess vegna verður lánsfjárþörf ríkissjóðs í viðbót við það sem áætlað hafði verið rúmir 6,3 milljarðar kr. Það er alveg ljóst að við framlagningu frv. sl. haust hafa menn ekki tekið hlutina mjög alvarlega, ekki gert ráð fyrir því sem í raun og veru var þó fyrirsjáanlegt, þ.e. að miklu minni umsvif yrðu á næsta ári, að atvinnuleysi yrði meira, að innflutningur yrði minni og þar af leiðandi mundu tekjur ríkissjóðs minnka frá því sem áætlað hafði verið í frv.
    Með þessu fjáraukalagafrv. sýnir það sig að tekjurnar eru 2,5 milljörðum kr. minni en áætlað hafði verið. Það er hægt að fara yfir það í nokkrum orðum að staðgreiðslan skilaði 1 milljarði kr. minna, innheimta tekjuskatts fyrirtækja varð minni vegna vaxandi erfiðleika fyrirtækjanna, virðisaukaskatturinn skilaði 1,3 milljörðum kr. minna en gert var ráð fyrir og útlit er fyrir að sala eigna skili aðeins hálfum milljarði í stað eins milljarðs kr. Alls lækkar þetta tekjurnar um tæplega 2,5 milljarða. Gjöldin hækka svo um mjög svipaða tölu, um 2,6 milljarða kr. og eru þó ekki öll kurl komin til grafar þar sem enn þá er ágreiningur milli heilbrrn. og fjmrn. um það hvernig taka eigi á lyfjakostnaði Tryggingastofnunar ríkisins. Þar er ágreiningur um 400 millj. kr. sem ekki eru komnar inn í þetta fjáraukalagafrv. sem heilbrrh. vill að fari þar inn en fjmrn. telur að ekki eigi að fara þar inn. Strax er þetta fjáraukalagafrv. því orðið óraunhæft miðað við framlagningu.
    Í frv. fara útgjöldin um 2,6 milljarða kr. fram úr áætlun og það er fyrir utan sjúkratryggingar sem ágreiningur er um. Heilbrigðismál eru 1,2 milljarðar í allt, auk þessara 400 millj. kr. Þá fara 500 millj. kr. í viðbót til atvinnuleysistrygginga vegna vaxandi atvinnuleysis sem ekki var tekið á með fjárlagafrv. þegar það var lagt fram og samþykkt. Síðan fara til viðbótar 900 millj. kr. til landbúnaðar vegna búvöruframleiðslu og vegna eldri samnings sem í gildi var á árinu og ýmissa annarra liða tengdra því.
    Hins vegar ber að fagna því að þar sem verðbólgan hefur verið svo lág sem raun ber vitni eru vaxtagreiðslurnar ekki jafnmiklar og áætlað hafði verið. Þar munar um 500 millj. kr. og er auðvitað ástæða til að fagna því að vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru þessari upphæð lægri en gert hafði verið ráð fyrir. Það sýnir enn og aftur hversu óraunhæf fjárlög hér var um að ræða að ekki var þar gert ráð fyrir þessu. Menn höfðu reiknað með meiri verðbólgu, meiri umsvifum og betra atvinnuástandi en varð. Þetta fjáraukalagafrv. ber auðvitað keim af þessu öllu saman.
    Hv. 2. þm. Austurl. Jón Kristjánsson fór mjög nákvæmlega í alla liði og ég veit ekki hversu nákvæmlega ég á að endurtaka það. En ég vil vekja athygli á því að þessi halli veldur auðvitað viðbótarlánsfjárþörf upp á 6,3 milljarða kr. Á það var lögð mjög mikil áhersla á síðasta ári að ekki yrði um mikinn halla á ríkissjóði að ræða og ekki yrði um að ræða auknar lántökur sem búið væri að gera of mikið af á undanförnum árum. Get ég vissulega tekið undir það.
    Ég ætla að stikla á nokkrum atriðum. Það er t.d. talsverð hækkun, þótt hún sé eins og venjulega falin nokkuð inni á milli línanna í sambandi við þann kostnað sem við tökum á okkur vegna Evrópsks efnahagssvæðis eða þess samnings sem verður hugsanlega samþykktur. Nú þegar er það staðreynd að Alþingi þarf að sækja um 27,5 millj. kr. vegna þess að þinghald hófst sex vikum fyrr en áætlað hafði verið og beinlínis er þarna um 27,5 millj. kr. að ræða í viðbótarkostnað vegna þinghaldsins. Þar að auki sækir utanrrn. um rúmar 30 millj. kr., 24,6 millj., vegna ófyrirséðra útgjalda vegna samningsins, eins og það heitir. Síðan sækir það um 4,6 millj. kr. vegna þess að nýtt skrifstofuhúsnæði var tekið í notkun í Brussel hjá Evrópubandalaginu. Auk þess, eins og segir þar, þurfti að fjölga starfsmönnum en ekki er getið um þann kostnað sem af því hefur hlotist.
    Það vekur athygli hvað varðar Lánasjóð ísl. námsmanna, sem mikið hefur verið í umræðunni, að farið er fram á 220 millj. kr. lækkun á fjárveitingu til stofnunarinnar og því lýst að ný lög, sem voru sett um sjóðinn í vor, og úthlutunarreglur, sem var breytt í kjölfar þeirra, hafi leitt til þess að um minni fjárþörf sjóðsins sé að ræða en gert hafi verið ráð fyrir í fjárlögum.
    Það er staðreynd að námsmönnum hefur fækkað mikið og þar af leiðandi mun trúlega verða einhver samdráttur í því sem lýtur að úthlutunum námslána. Þó sýnist mér að þessi tala muni eins vera til komin vegna þess að ekki er um úthlutun haustlána að ræða. Það færist því yfir á næsta ár og þess vegna verður upphæð námslána miklum mun minni á þessu ári en var á síðasta ári og jafnvel enn minni en gert var ráð fyrir. Það er trúlega skýringin á því að lánasjóðurinn þarf ekki þær 220 millj. kr. á þessu ári. Hins vegar er það líka staðreynd að lánasjóðurinn mun þurfa á mjög auknum lántökum að halda í framtíðinni og kemur það fram í frv. til lánsfjárlaga sem hér verður rætt á eftir. Ef ekkert verður gert í þeim málum að lengja lán sjóðsins, en þau eru mörg til mjög skamms tíma, mun sjóðurinn þurfa að taka mjög mikið að láni á næstu árum því ekki er gert ráð fyrir því að framlag ríkisins muni vaxa að sama skapi. Það er því auðséð að sjóðurinn þarf aukið framlag á næsta ári og þarnæsta ári en á sama tíma er verið að fara fram á 220 millj. kr. lækkun á fjárveitingum á fjáraukalagafrv. Þetta stangast nokkuð á.
    Eitt er það sem ekki hefur skilað sér í tekjuáætlun ríkisstjórnarinnar. Það eru tekjur af sölu kvóta Hagræðingarsjóðs. Það vakti athygli í haust þegar kvóti Hagræðingarsjóðs var auglýstur til sölu að engin keppni var um að kaupa hann. Mér skilst að það sé mest allt óselt af honum enn þá og ekki vitað hvort einhverjar tekjur verða af þeirri sölu. Ekki er því hægt að gera ráð fyrir því að þær rúmlega 500 millj. kr. innheimtist og raunar er búið að lækka þær að mig minnir í rúmar 400 millj. Í fjáraukalagafrv. er aðeins farið fram á 83 millj. kr. til að bæta upp þann mismun sem kvótinn á að seljast fyrir en ekki gert ráð fyrir því að tekjurnar skili sér ekki að öðru leyti þó að það sé mjög óvíst og í raun og veru staðreynd að ekki tekst að selja þennan kvóta.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji að það hafi orðið og verði sparnaður af því að hefja rekstur Fiskistofu á þessu ári. Því var lýst að tilkostnaðurinn yrði sáralítill eða enginn vegna þess að þarna væri bara verið að sameina stofnanir, flytja verkefni til og ekki yrði um neinn kostnað að ræða. Samt er í fjáraukalagafrv. farið fram á 38 millj. kr. til að hefja rekstur Fiskistofu sem var stofnuð með lögum sem samþykkt voru á síðasta ári. Það virðist því ætla að verða einhver kostnaður við þetta og reynslan hefur sýnt að slíkar stofnanir hafa tilhneigingu til að vaxa samkvæmt Parkinsons-lögmálinu.
    Ég tel einnig rétt að vekja athygli á ýmsum rekstrarkostnaði sýslumannsembætta. Þar er farið fram á 69 millj kr. hækkun á gjöldum vegna laga um aukatekjur ríkissjóðs. Þessar breytingar virðast allar vera að einhverju leyti vegna nauðungaruppboða, birtingu kvaðninga, undirbúnings aðfararaðgerða og slíks. Það segir manni að talsverður kostnaður sé orðinn við það að óska eftir nauðungaruppboðum, við að auglýsa kostnaðinn eða birta kvaðningar og undirbúa þau að öðru leyti. Þar að auki koma til viðbótar í félmrn. 76 millj. kr. vegna ábyrgðar á launum sem er auðvitað líka vegna gjaldþrota. Talsverður kostnaður er því hjá íslenska ríkinu vegna þessara mála þó að stefnan sé sú hjá hæstv. ríkisstjórn að það leysi nánast allan vanda að láta gjaldþrot eiga sér stað og hagræða með því móti. Það virðist kosta talsvert mikið í beinhörðum peningum fyrir utan alla félagslegu erfiðleikana sem það veldur.
    Heilbr.- og trmrn. er kafli út af fyrir sig. Þar átti að ná tveggja milljarða kr. sparnaði á árinu en nú er til viðbótar farið fram á 1 milljarð 638,4 millj. kr. og það er ekki tekið á því hvernig á að fara með kostnað Tryggingastofnunar ríkisins sem ágreiningur er um og er allt að 400 millj. kr. Þar með erum við komin upp í 2 milljarða kr. sem áætlað er að þurfi til viðbótar í heilbrrn. en á sama tíma var áætlunin á fjárlögum í fyrra að það ættu að sparast 2 milljarðar kr. Nokkurn veginn sömu upphæð þarf núna til viðbótar til þess að fjárlög standist. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í hvað þetta er. Það gefst aftur tími til að rekja það betur við 2. umr.
    Nokkuð einkennileg klásúla er frá heilbrrn. hvað varðar viðbótarkostnað sem farið er fram á til nokkurra sjúkrastofnana. Það er sagt að það þurfi viðbótarframlag, m.a. til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Borgarspítalans og St. Jósefsspítala. Alla vega fyrir þessar þrjár stofnanir er farið fram á viðbótarframlag vegna kostnaðar sem hefði fallið til vegna kjarasamnings við aðstoðarlækna sem gerður var árið 1991. Skýringin er sú að hagræðing samkvæmt bókun með samningnum, sem var ætlað að mæta auknum kostnaði, hefur ekki farið fram. Þessi hagræðing virðist vera eitthvert rugl og feluleikur, eins og einn gestur orðaði það í fjárln. í morgun. Það kannast enginn við að hagræðing hafi átt að fara fram samkvæmt einhverri bókun með samningi sem gerður hafi verið og þar að auki upplýsti Borgarspítalinn eða fulltrúar hans að þetta væri ekki allt vegna kostnaðar sem til félli vegna kjarasamnings við aðstoðarlækna heldur væru 2 / 3 hlutar af þessari upphæð vegna sérfræðingskostnaðar. Það er því ekki einu sinni rétt farið með í greinargerð með þessum upphæðum. Ég held að rétt væri að beina því til hæstv. fjmrh. að skoða hvað hér muni vera um að ræða.
    Þá kom það einnig fram hjá fulltrúum frá St. Jósefsspítala, Landakoti, sem í morgun voru á fundi með fjárln., raunar til að ræða um fjárlög næsta árs en ekki fjáraukalög, að umframkostnaður þeirra á þessu ári muni trúlega verða í kringum 75 millj. kr. Samt eru þeir búnir að hagræða eða að skera niður hjá sér með valdboði að ofan eins og það var gert milli 300 og 400 millj. kr. Þó komast þeir ekki hjá því miðað við þá starfsemi sem í gangi er að fara um 75 millj. kr. fram úr fjárlögum yfirstandandi árs. Þetta er ekki viðurkennt. Sagt er að þeir eigi að taka þennan umframkostnað af fjárveitingum næsta árs. Þrátt fyrir það að þeir hafi fengið tilskipanir um með svo til engum fyrirvara að skipuleggja sitt starf er ekki tekið tillit til þess heldur eiga þeir að færa þetta á milli ára og taka það af fjárframlögum til rekstrar á næsta ári. Aðeins er viðurkennt hér í þessu fjáraukalagafrv. að þeir þurfi 5,7 millj. kr. vegna kjarasamnings við aðstoðarlækna sem hafa verið gerðir.
    Það liggur auðvitað í augum uppi að miðað við þær aðstæður sem sköpuðust á St. Jósefsspítala á síðasta ári þegar sífellt var verið að kasta þessari stofnun á milli ráðuneyta, á milli hugmyndafræðinga og nefnda. Svo þegar ákvörðunin kom loksins áttu þeir að fara eftir því án þess að hafa neinn tíma til þeirrar endurskipulagningar sem það hlaut að hafa í för með sér. Það er því ekki hægt að búast við því að

stofnunin hafi getað náð öllum þeim markmiðum sem sett voru fram við fjárlagagerðina á síðasta ári.
    Þá vil ég nefna það að í samgrn. er farið fram á 28 millj. kr. til Hríseyjarhrepps vegna rekstrar og afborgana skulda hjá Eyjafjarðarferjunum. Það er í stuttu máli mjög stórt mál. Það er ekki búið að ganga frá því hvernig það verður. Eins og það er orðað er það í endurskoðun og er þessa stundina líklega í skoðun hjá Vegagerð ríkisins sem mun eiga að yfirtaka rekstur flóabáta og ferja um áramót. Þrátt fyrir það að Vegagerðin muni fá þann rekstrarkostnað sem áætlaður verður og kannski í svipuðu hlutfalli og var á yfirstandandi ári er ekki búið að taka á því hvernig komist verður fram úr þeim erfiðleikum sem Hríseyjarhreppur og þeir aðilar standa í sem hafa séð um reksturinn á þessum Eyjafjarðarferjum. Það er óleyst mál og ekki tekið á því í þessu fjáraukalagafrv., þar eru aðeins þessar 28 millj. kr. sem ætlaðar eru til þess sem áfallið er af afborgunum skulda. Þar er því enn eftir óleyst vandamál.
    Ég vil svo að lokum leggja áherslu á að því miður hafa þau markmið ekki náðst sem ríkisstjórnin setti sér í því að minnka halla á fjárlögum. Það er kannski heldur ekki von til þess vegna þess að þær aðgerðir sem beitt var voru alls ekki raunhæfar. Þær voru ekki nógu vel undirbúnar og ekki var unnið að þeim með langtímasjónarmið í huga. Flatur niðurskurður skilar yfirleitt ekki miklu af því sem ætlast er til. Það sýnir sig með þessu fjáraukalagafrv. að engan veginn hefur tekist að standa við þau áform sem voru um fjárlög yfirstandandi árs.