Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 16:24:34 (1572)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vil ég gera tilraun til þess að svara hv. síðasta ræðumanni en hann beindi til mín þeirri fyrirspurn hvort ég hygðist beita mér fyrir því að flutt yrði hér frv. í vetur um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að það komi fram í framhaldi af ræðu hans að hér á síðasta þingi var flutt slíkt frv. Flm. voru hv. þm. sem sitja í fjárln. þingsins og frv. var flutt eftir að það hafði verið rætt af starfsmönnum fjmrn. og unnið af hv. nefndarmönnum í fjárln. með tilstyrk, vil ég segja, eða aðstoð starfsmanna Ríkisendurskoðunar. Ég vil einnig rifja það upp að það stóð til þá að frv. yrði flutt af ríkisstjórninni en niðurstaðan varð sú að fara þessa leið og ég get eingöngu sagt það hér að ég er fyrir mitt leyti tilbúinn til þess að standa að því að slíkt frv. verði flutt. Ég get ekki á þessari stundu sagt fyrir um það hvort heppilegt eða æskilegt sé að slíkt frv. sé flutt af ríkisstjórninni eða hvort eðlilegt sé að þetta verði þingmannafrv. eins og raunin varð á á sl. vetri. Ég vil þó láta koma fram að það eru nokkur atriði í því frv. sem mér finnst æskilegt að skoða betur og ég minni á að að undanförnu hafa farið fram mjög miklar viðræður í nefndum á vegum fjmrn., Ríkisendurskoðunar, ríkisbókhalds og annarra aðila um bæði fjárgreiðslur og heimildir stjórnvalda til þess að greiða úr ríkissjóði og einnig um það hvernig setja skuli fram ríkisreikninga.
    Í þessu sambandi vil ég enn á ný benda hv. þm. á sérkafla í fjárlagafrv. sem mig minnir að sé 8. kafli athugasemdanna þar sem mjög ítarlega er greint frá því sem hefur verið að gerast í þessum efnum. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur hér að fylgjast mjög rækilega með því hvað er að gerast í þessum efnum annars staðar. Það var minnst á OECD hér fyrr í umræðunni og þannig vill til að á vegum þeirra samtaka er mjög mikið unnið að nýjungum í fjárlagagerð, uppsetningu ríkisreiknings og öðru slíku sem til framfara horfir. Nýsjálendingar hafa til að mynda nýlega breytt sínum ríkisreikningi þannig að það er nú auðveldara að lesa þar efnhagsreikning Nýja-Sjálands, sjá í hvað greiðslur fara, hvort um er að ræða eignaaukandi útgjöld eða hvort verið er að greiða aðeins fyrir rekstur.
    Ég tel það sjálfsagt að á hverjum tíma fari fram umræða á milli Alþingis, á milli fjárveitingavaldsins, á milli löggjafarsamkomunnar annars vegar og framkvæmdarvaldsins hins vegar um þessi mál. Við megum hins vegar ekki falla í þá gryfju eins og mér sýnist stundum að menn geri, og er ég þá ekki að benda á einn eða neinn í því sambandi, og það er að álíta að það sé og hljóti að eiga að vera einhver togstreita á milli þingsins annars vegar og ríkisstjórnarinnar eða framkvæmdarvaldsins hins vegar. Ég held að slíkt sé óþarfi einfaldlega vegna þess að hér ríkir þingræði en í því felst að ríkisstjórnin á allt sitt undir því að meiri hluti þings styðji hana og verji hana vantrausti. Í framkvæmd er það þannig hér á landi að langoftast hagar þannig til að allir, a.m.k. flestallir ráðherranna eru úr hópi þingmanna og oft þess vegna erfitt að greina á milli löggjafarstarfs þeirra annars vegar og starfs þeirra í þágu framkvæmdarvaldsins hins vegar. Það er nefnilega þannig hér á landi að skilin á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins eru mun óskýrari heldur en víða annars staðar og bendi ég á til að mynda á Bandaríkin og jafnvel Frakkland í því sambandi.
    Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu um annað af því sem kom fram hjá hv. þm. Það koma þá væntanlega svör við því þegar ég ræði um ræður annarra hv. þm. Ég vil þó segja varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna að tillögur í fjáraukalagafrv. eru þær að um 2 milljarðar kr. ganga til Lánasjóðs ísl. námsmanna á þessu ári. Til að hafa einhvern samanburð á því fjármagni sem hér er um að ræða var áttu á fjárlögum fyrir 1991 að ganga 1.700 millj. kr., ef ég man rétt, til þessa verkefnis. Munurinn er hins vegar sá að nú er gert ráð fyrir því að þeir sem fá lán úr sjóðnum greiði til baka með fljótvirkari hætti en áður. Þar að auki greiða þeir 1% vexti. Þetta þýðir að fjárframlag ríkisins er miðað við að eigið fjármagn sjóðsins sé það sama eftir sem áður. Við það er miðað og þegar verið er að færa til baka ákveðnar fjárhæðir er það eingöngu gert til þess að færa til samræmis við útgjöld og lán sjóðsins.
    Þetta vildi ég að kæmi fram því ég held að það sé ekki hægt að gagnrýna hæstv. menntmrh. fyrir það sem kemur fram í þessu frv. eða að honum hafi gengið eitthvað annað til en hann sagði þegar hann flutti frv. til breytinga á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég vil undirstrika að ég tel að það hafi verið eitt þarfasta frv. sem flutt hefur verið á hinu háa Alþingi í seinni tíð.
    Umræðan sem hér hefur farið fram ber þess nokkur merki, sem eðlilegt er, að hv. nefndarmenn í fjárln. hafa haft þetta mál til meðferðar að undanförnu. Þess vegna er ljóst að spurningar um tiltekin atriði eiga sér stoð í því að menn hafa verið að fara yfir frv. og ,,yfirheyrt`` tiltekna starfsmenn framkvæmdarvaldsins eða átt viðræður við þá eins og kom hér fram.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson minnti á að sá sem hér stendur hafi á sínum tíma flutt ræðu með fjárlagafrv. og minnst þá á tímamótafrumvarp. Það er vissulega rétt að ég sagði þá að ef við næðum þeim tilgangi okkar sem kom fram í frv. væri hér um tímamótafrumvarp að ræða. Það er auðvitað annarra að dæma um það en ég kemst þó ekki hjá því að segja þrátt fyrir allt að það hlýtur að teljast til tíðinda, ég skal ekki segja tímamóta þó það séu kannski tímamót, að svo kann að fara að útgjöld á þessu ári og reyndar tekjur líka verði lægri en útgjöld og tekjur á sl. ári. Það er alveg nýtt, sama hvort reiknað er á föstu verðlagi eða hvort notaðar eru þær tölur sem eru á verðlagi hvors árs fyrir sig. Á þetta minni ég því það hlýtur að teljast til tíðinda þegar slíkt gerist og vissulega hefur árangur náðst þó ég skuli fyrstur manna viðurkenna að ég hefði gjarnan viljað sjá meiri árangur í þessum efnum.
    Hv. þm. sagði að sparnaður hefði ekki náðst og þá þarf auðvitað að leggja ákveðna merkingu í orðið sparnaður. Ég tel nefnilega að sparnaðurinn hafi náðst. Rekstrarsparnaðurinn náðist. Um þá gagnrýni sem kom hér fram, m.a. frá öðrum hv. þm., um að flati niðurskurðurinn hafi ekki náðst fram vil ég segja að þvert á allar þessar fullyrðingar tel ég að eitt stærsta afrekið sé þó það að sá sparnaður sem snýr að rekstri hefur náðst.
    Hins vegar er það rétt sem margoft hefur komið fram að í sjálfvirkum útgjöldum, þeim sem stundum eru kölluð rekstrartilfærslur, vantar enn talsvert á að árangur náist. Sem betur fer er þó sýnt að á næsta ári mun verða um árangur að ræða á landbúnaðarsviðinu. Ég vil taka undir það með mönnum sem hafa bent á að það gerist fyrst og fremst vegna þess að bændur taka á sig verulegan skell. Það þarf að koma fram. Það gerist fyrst og fremst þess vegna og þeir búa ekki við sama öryggi og áður. En við eigum enn eftir að ná tökum á þeim vanda sem fylgir sjálfvirkum útgjöldum á heilbrigðis- og tryggingasviðinu. Enn og aftur vil ég segja að séu menn að tala um svokallaða sænska leið var eitt stærsta einkenni á þeirri leið að taka á velferðarkerfinu sænska. Ég hygg að það hljóti að vera okkar skylda að taka á okkar kerfi.
    Þetta gefur mér kannski tilefni til þess á einni eða tveimur mínútum að benda á að Svíar og reyndar flest allir aðrir gera mun á tvenns konar útgjaldaaukningu. Það ættum við að gera líka hér á landi. Annars vegar kerfislægum halla og hins vegar halla sem stafar af breytingum í efnahagsástandi. Þeir lögðu mikið upp úr því í sínum niðurskurði að ná tökum á þessum kerfislæga halla, þ.e. þeim vexti sem m.a. skapast af því að þjóðirnar eru að eldast og kostnaðaraukningin er svo mikil vegna gildandi laga og það þarf að draga úr þessum sjálfvirka vaxandi kostnaði.
    Hins vegar, segja þeir og fleiri og ég hygg að það sé rétt, ber að líta á það sem tímabundið vandamál þegar útgjöld aukast eða tekjur dragast saman vegna ytri aðstæðna sem svo eru kallaðar eða efnahagsaðstæðna. Með öðrum orðum séu aukin útgjöld vegna aukins atvinnuleysis eða minnkandi tekjur vegna veltusamdráttar af allt öðrum toga og allt annars konar vandamál sem leysist um leið og okkur hefur tekist að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur.
    Á þetta vil ég leggja áherslu því mér hefur stundum fundist í umræðunum eins og það gleymist að greina í sundur útgjaldaástæðurnar.
    Nokkuð var rætt um það og hv. þm. Jón Kristjánsson og reyndar Steingrímur J. Sigfússon ræddu um það að ekki hefði tekist að selja þær eignir sem að var stefnt í upphafi. Það er alveg hárrétt. Það var stefnt að því á yfirstandandi ári að selja eignir að upphæð 1.100 millj. kr. eða þar um bil. Sú eignasala sem nú þegar hefur átt sér stað, eða frá janúar til september, er 242 millj., þ.e. sala fasteigna upp á 100 millj., Framleiðsludeild ÁTVR, Gutenberg, Jarðboranir og Ferðaskrifstofa ríkisins. Þá er stefnt að því og að því unnið nú að selja hlutabréf ríkissjóðs í Þróunarfélagi Íslands og Íslenskri endurtryggingu. Auk þess er reiknað með að sala Jarðborana gefi meira en komið var í kassann í lok septembermánaðar. Það er því gert ráð fyrir því að það náist um 500 millj. eða þar um bil á þessu ári.
    Það er rétt að um það bil 600 millj. kr. vantar upp á að sá árangur náðist sem að var stefnt á yfirstandandi ári. Ástæðan fyrir því er kannski fyrst og fremst sú að þá, eins og nú fyrir næsta ár, hafði verið ráðgert að selja lánastofnun sem gæti gefið meira í aðra hönd.
    Á næsta ári er gert ráð fyrir því að við öflum tekna upp á 1.500 millj. kr. Þar er auðvitað horft til Búnaðarbankans. Sumir halda því fram að það sé erfitt fyrir markaðinn að taka við svo miklu magni af hlutabréfum til sölu en sérfræðingar hafa þó haldið því fram að markaðurinn hér geti tekið við 2--3 milljörðum í hlutabréfum til sölu á ári. Verðbréfamarkaðurinn hér sem er orðinn virkari en áður var sýnir sig að geta tekið við auknu magni þótt rétt sé að benda á að hlutabréfaverð hafi farið lækkandi að undanförnu af ástæðum sem menn þekkja.
    Þá var nokkuð vikið hér að heilbrigðismálum og ég vil gera tilraun til að gefa skýringar á því sem um var beðið varðandi þann málaflokk. Það var réttilega minnst á að það er enn ekki fullt samkomulag um hvernig taka á á fyrirsjáanlegum 300--400 millj. kr. halla. Við töldum hallann vera 300 millj. kr. en í umræðunni kom fram að heilbrrn. teldi hann vera 400 millj. kr. Ég vil af þessu tilefni taka fram að það er verið að skoða allar leiðir til þess að lækka lyfjakostnaðinn. Þetta snýr fyrst og fremst að lyfjakostnaði Tryggingastofnunarinnar. Þegar þeirri skoðun er lokið verður áætlaður kostnaður ríkisins af lyfjum á næsta ári metinn og að hve miklu leyti megi færa þennan kostnað yfir til næsta árs.
    Ég vil minna á að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna á sl. vori var gert ráð fyrir að samráð skyldi vera á milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar um upptöku hlutfallsgreiðslna neytenda í lyfjakostnaði með það að markmiði að kostnaður ríkisins vegna lyfja yrði innan heimilda fjárlaga. Þær breytingar sem gerðar voru um mitt sumar, reyndar allt of seint að mínu áliti, virðast því miður leiða til óverulegrar lækkunar útgjalda vegna lyfja og þess vegna er þörf á viðbótaraðgerðum.
    Ég vil taka það fram að frá mínum bæjardyrum séð er augljóst að ekki verður hægt að ná tökum á þessum vanda fyrr en við innleiðum hlutfallsgreiðslur í stærri stíl en við höfum gert á þessu sviði og reyndar á fleiri sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Það er einu sinni þannig, og það hef ég sjálfur sagt margsinnis, að stjórnmálamenn geta aldrei náð tökum á þessum útgjaldaflokki fyrr en þeir fá almenning í lið með sér. Almenningur fæst ekki til þess að ganga í lið með stjórnmálamönnum fyrr en hann veit hver kostnaðurinn er, hefur kostnaðarvitund og tekur að sér að greiða hluta kostnaðarins, jafnvel þótt hann fái hann kannski endurgreiddan síðar. Þetta er lykilatriði sem allir stjórnmálamenn gera sér grein fyrir og þess vegna er svo mikilvægt að um gagnsæi sé að ræða í þessum efnum og öllum sé ljóst hvað hlutirnir kosta.
    Það er fleira sem varðar heilbrigðismálin og vil ég segja það sérstaklega að fjmrn. hafði aldrei fallist á að Tryggingastofnun ríkisins greiddi Ríkisspítölum fyrir þjónustu vegna geislalækninganna. Það er auðvitað mál heilbrrn. að áætla sértekjur Ríkisspítalanna rétt, en það er ljóst að fjmrn. hafði ekki fallist á að sértekjurnar væru fundnar með þessum hætti. Almennt gildir sú regla að stofnanir þurfa að standa við fjárlög. Ef það gerist ekki þá færast umframútgjöldin til næsta árs. Viðkomandi ráðuneyti hefur hins vegar möguleika á fjárlögum næsta árs að leiðrétta fjárveitingar, t.d. fjárveitingar Ríkisspítala, ef ástæða er til. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að komi fram varðandi þá umræðu sem hefur orðið vegna heilbrigðismálanna.
    Það var enn fremur spurt hvernig stæði á því að beðið væri um aukafjárveitingar vegna aðstoðarlækna og frá því sagt að menn í spítalakerfinu könnuðust ekki við þennan samning. Samningurinn var reyndar gerður fyrir mína tíð eða 30. jan. 1991 og er kannski öðrum jafnvel hér í sal kunnugri en mér, en í bókun sem fylgir þessum samningi segir, með leyfi forseta:
    ,,Samningsaðilar beina því til stjórnar sjúkrahúsa að þær feli yfirlæknum ásamt formönnum læknaráða að endurskoða vinnufyrirkomulag aðstoðarlækna með það að markmiði að vaktir þeirra séu hvorki óhóflega langar né tíðar. Jafnframt skal kannað hvort unnt sé að fækka vöktum aðstoðarlækna með því að sameina vaktir og/eða taka upp gæsluvaktir í stað bundinna vakta. Tekið skal tillit til óhjákvæmilegrar viðveru aðstoðarlækna á hefðbundnum dagvinnutíma vegna þjálfunar þeirra.
    Niðurstöðum skal skila til stjórnar sjúkrahúsanna fyrir 15. mars nk.`` --- Ég skýt því hér inn í að það er 15. mars 1991. --- ,,Framkvæmdastjórar sjúkrahúsanna skulu hafa samráð við formenn læknaráða og forstöðumenn deilda um breytingar á vinnufyrirkomulagi aðstoðarlækna og skal við það miðað að þær komi til framkvæmda 1. apríl 1991.``
    Ég les ekki fleira úr þessari bókun, sem er bókun 1 og fylgdi þessum samningi, en bendi á að með þessari bókun var gengið út frá því að til hagræðingar kæmi og sá kostnaður mundi lækka, m.a. með því að færri aðstoðarlæknar tækju þá hærri laun hver maður. Þetta virðist ekki hafa gengið eftir eins og kom fram í umræðunni og kemur fram í fjáraukalagafrv. Ef það er hins vegar svo að skýringar frá viðkomandi stofnunum koma um að þetta sé aðeins hluti vandans verð ég að segja að erindi koma til fjmrn. með þeim hætti að viðkomandi ráðuneyti skrifa fjmrn. og óska eftir aukafjárveitingum. Það eina sem við gerum ef þær eru teknar til greina og ríkisstjórnin fellst á að hafa þær í fjáraukalagafrv. er það gert og textinn á að fylgja þeim bréfum.
    Sé vandinn hins vegar annar er annaðhvort eitthvað að í samskiptum viðkomandi stofnana og fagráðuneytis eða eitthvað hefur gerst varðandi samskipti fagráðuneytis og fjmrn. En það kemur mér á óvart ef sagt er að það sem tilgreint er í athugasemdunum sé annað en þar er sagt. Þetta segi ég vegna þess að því var lýst áðan í umræðu að fleiri atriði hefðu komið til en kostnaður vegna aðstoðarlæknanna.
    Um Fiskistofu get ég verið stuttorður. Það voru reyndar fleiri hv. þm. sem fjölluðu um Fiskistofuna. Það er álitið að hún komi í staðinn fyrir aðrar stofnanir og eigi ekki að auka útgjöld, en hér er hins vegar um flýtingu á fjárfestingu að ræða. Það var gripið til þess ráðs að hefja það starf þegar á þessu ári jafnvel þótt fjárveitingar væru ekki til. Það ætti hins vegar að jafna sig þegar frá líður.
    Um Hagræðingarsjóðinn, sölu veiðiheimilda hans, hefur talsvert verið rætt í þessum umræðum. Ég vil fyrst segja það að ég viðurkenni að það hefði verið heppilegra að nota aðra aðferð en þá sem niðurstaðan varð. Ég hefði talið eðlilegra að allir þeir sem njóta rannsóknastarfseminnar á Hafrannsóknarstofnun hefðu greitt í þetta púkk. Þá á ég við, auk þeirra sem nú gera það, rækjuna og skeldýrin og fleiri en eins og allir vita eru ekki heimildir til veiða á þessum kvikindum í Hagræðingarsjóðnum. Þetta segi ég vegna þess að ég teldi að það hefði verið réttlátara að dreifa kostnaðinum á alla. Niðurstaðan varð hins vegar önnur af því að ég taldi að sjávarútveginum þætti það þekkilegra að fara þá leið sem valin var. Þetta vil ég að komi fram í fyrsta lagi.
    Í öðru lagi er ljóst að menn hafa verið að kaupa veiðiheimildir að undanförnu fyrir milljarða króna á misjöfnu verði. Ekki úr Hagræðingarsjóði, heldur hefur það verið gert með því að einn hefur selt öðrum. Þetta er alþekkt. Menn verða að sætta sig við markaðsverð á hverjum tíma.
    Það var ágreiningur um hvað textinn þýddi þegar talað var um verð á þessum heimildum. Ég féllst á það að miða við markaðsverð á þeim tíma þegar þessar heimildir áttu að koma til sölu. Þess vegna var verðið lækkað því eldri viðmiðun miðaði við markaðsverð þegar lögin voru sett.
    Nú er ljóst að aflabrestur er mikill og mun meiri en við gerðum ráð fyrir. Ástandið nú er því ólíkt því sem verið hefur á undanförnum mánuðum og missirum. Þess vegna hafa verið flutt, að ég best veit, á milli fiskveiðiáranna líklega ein 32 þús. þorskígildistonn, hvorki meira né minna. Ástæðan fyrir þessu er sú að um aflabrest hefur verið að ræða. Það má gera ráð fyrir því og það vita flestir sem eitthvað fylgjast með sjávarútvegsmálum að þetta getur leitt til þess að afli á yfirstandandi ári verður miklu minni en ráð var fyrir gert í öllum þeim áætlunum sem við höfum staðið frammi fyrir. En við gerum okkur hins vegar vonir um það að sjálfsögðu að afli glæðist á næsta ári og gangi það eftir má búast við því að heimildir Hagræðingarsjóðs verði hægt að selja með góðu móti. Það er enn ekki fullkomlega ljóst hvernig að því verður staðið. Eðlilegast er að gera það á þessu hausti, að bjóða heimildirnar út en það kemur jafnframt til greina að taka lán og þá auðvitað með aðild Alþingis og geyma söluna til næsta vors. Ef það kemur hins vegar í ljós að aflinn er svo lélegur að menn leggja ekki í slík kaup stöndum við frammi fyrir alveg nýrri spurningu og hún er þessi: Kann það að vera að ríkið þurfi að sitja uppi með þennan kostnað sem eins konar fjárfestingu í friðun eða þurfi að halda veiðunum niðri, taka á sig þennan kostnað vegna þess að ljóst sé að engu máli skiptir hvort þessar veiðiheimildir eru gefnar eða seldar, aflinn fæst ekki hvort sem er? Gerist það stendur þessi þjóð frammi fyrir miklu alvarlegri vanda en við höfum haldið hingað til. Þá stendur hún ekki einungis frammi fyrir þeim vanda að við séum að skerða þorskveiðarnar núna til þess að byggja upp stofninn. Þá stöndum við frammi fyrir alveg nýjum vandamálum, sem sé þeim að Íslandsmið gefa ekki af sér það sem við héldum hingað til. Satt að segja get ég ekki hugsað þá hugsun til enda og ég efast um að aðrir hv. þm. geti gert það heldur. Það er mál sem við verðum öll í sameiningu að fygljast með og taka á þegar að því kemur.
    Um Atvinnuleysistryggingasjóð vil ég einungis segja það að ég tel að þessir fjármunir dugi ef atvinnuleysi verður ekki meira en þau 3% sem nefnd eru. Um það vitum við að sjálfsögðu ekki nákvæmlega en við vitum þó að þetta er nokkurn veginn sú tala sem mun birtast. Það er fylgst með þessu frá einum mánuði til annars, reyndar í hverri viku en svo kann þó að fara í lok ársins að atvinnuleysi verði meira. Þá verður ríkissjóður að greiða þann kostnað og með þessu verðum við að fylgjast þegar frv. er til meðferðar í þinginu, í nefndinni. Það er nú einu sinni þannig og það vita auðvitað allir þingmenn sem hér hafa talað að fjárlagafrv. byggist á áætlunum og meira að segja fjáraukalagafrv., sem lagt er fram um þetta leyti, byggist einnig á áætlunum. Það er ekki fyrr en í lokin, þegar árið er gert upp, sem við vitum hver niðurstaðan verður. Þannig getur enginn búist við því að allar tölur í fjárlagafrv. standist. Þá væri meira en lítið að í þessu þjóðfélagi.
    Um vexti ræddu nokkrir þingmenn, þar á meðal hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og hv. þm. Jón Kristjánsson. Ég vil aðeins taka það fram því mér fannst gæta misskilnings hjá þeim og reyndar einnig hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að hér væri einungis verið að greiða vexti af erlendum lánum. Svo er ekki því að hér er líka um vexti af innlendum lánum að ræða. Vaxtaþróunin varð sem betur fer á þessu ári þannig að vextir fóru lækkandi og það hefur haft þýðingu hér á landi. Um vexti af lánum í Bandaríkjadölum skal það sagt að langtímavextir í Bandaríkjunum hafa ekki lækkað eins mikið og skammtímavextir. Það er þekkt í bandarísku kosningabaráttunni hvernig þeir hafa verið að lækka skammtímavextina til að fá hjól ativinnulífsins til þess að snúast. Staðreyndin er sú að vextir af langtímaskuldbindingum í Bandaríkjunum hafa ekki lækkað eins mikið. Þetta er athyglisvert og kannski enn athyglisverðara í því ljósi að samkvæmt nýjasta hefti af The Economist, sem ég las í morgun, sá ég að bandarísk heimili hafa verið að greiða niður skuldir sínar að undanförnu þannig að bankakerfið þar hefur talsverða peninga umleikis. Vextir af skammtímaskuldbindingum hafa dottið niður en ekki af langtímaskuldbindingum. Þannig hagar til hjá okkur að við höfum Lánasýslu ríkisins í því frá einum degi til annars að reyna að finna hagstæðustu lánin og það eru blönduð lán. Þótt dollarinn sé góður í dag getur það snarbreyst á morgun ef gengi hans styrkist.
    Um ferjurnar vil ég segja að það er rétt að þessar 28 millj. kr. gera einungis að laga til fyrir þessum ferjum á yfirstandandi ári. Ég vil láta það koma fram hér að ég hef óskað eftir því að Ríkisendurskoðun taki út þessar ferjur, rekstur og reyndar byggingu á ferjum sem ég held að sé meiri háttar vandamál hjá okkur. Ég hygg að í stórkostlegri vímu rétt fyrir kosningar hafi menn því miður gripið til þess ráðs að fara allt of geyst í sakirnar í þessum efnum og við sitjum núna uppi með timburmennina. Ég tel það eðlilegt

að Ríkisendurskoðun skoði þessi mál og komi með sína úttekt áður en ég fer að segja fleiri orð um þetta. Þetta er vandamál sem er orðið og á því verður að taka. Við getum ekki hlaupið frá þessum kostnaði, hver sem hann verður, en við þurfum auðvitað að finna leið til þess að koma í veg fyrir það að kostnaðurinn verði sjálftekinn af rekstraraðilum. Ég hef talsverðar áhyggjur af því þessa stundina.
    Um sýslumannsembættin vil ég segja að þarna var náttúrlega um að ræða verulega breytingu sem menn sáu ekki nákvæmlega fyrir hvað mundi kosta. Það kemur í ljós að hún kostar heldur meira en við gerðum ráð fyrir en hefur hins vegar ekkert með það að gera sem heitir ríkisábyrgð á launum og er liður í þessu vegna þess að þar var aðeins um eftirhreytur að ræða frá gamla kerfinu og er fyrst og fremst til komin vegna lífeyrissjóða sem gerðu tilkall til ríkisábyrgða á launum og sendu inn sínar kröfur áður en lögunum var breytt fyrr á þessu ári. Það er vonast til þess að með nýju lögunum dugi þeir peningar sem aflast frá fyrirtækjunum til að standa undir þessum málaflokki.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir ræddi um viðskiptahallann og ríkissjóðshallann og taldi, ef ég skildi hana rétt, að minnkandi viðskiptahalli ætti að hjálpa okkur í afkomu ríkissjóðs. Það er nú öðru nær. ( GHelg: Þetta sagði ég ekki.) ( Gripið fram í: Þá hefur ráðherrann skilið hana rangt.) Ef svo er biðst ég nú afsökunar á því en það má kannski segja það enn á ný að einmitt minnkandi viðskiptahalli og lág verðbólga eru engir sérstakir vinir ríkissjóðs. Þess vegna er það alveg ljóst að ef við hleyptum verðbólgunni af stað aftur og ef viðskiptahallinn mundi aukast stæði ríkissjóður mjög vel núna. Það er ekki hægt að segja það sama um þjóðarbúið.
    Um virðisaukaskattinn er eingöngu það að segja að innheimtan hefur ekki verið verri en við var að búast. Hins vegar hefur veltusamdrátturinn orðið meiri en við áttum von á og þess vegna eru skilin minni. Það er staðreynd að við þurfum að breikka stofninn og lækka hlutfallið. Það er öruggasta aðferðin til að koma í veg fyrir skattsvik sem örlítið var minnst á.
    Nokkur ráðuneyti hafa fulltrúa í Brussel, þar á meðal fjmrn., á sinn kostnað að sjálfsögðu. Það telur sig hafa mjög mikið gagn af því, ekki eingöngu vegna EES heldur vegna framtíðarsamskiptanna, verslunarsamskiptanna milli okkar og Evrópubandalagsins sem eru í mikilli deiglu. Við hljótum að hafa fullt gagn af því hvernig sem niðurstaðan verður og þessi starfsmaður, sem ég þekki reyndar best til af þeim starfsmönnum sem þar eru, nýtist mjög vel fyrir fjmrn.
    Það er rétt sem hv. þm. sagði um skýrslu OECD. Þeir hafa bent á að á nokkrum og reyndar mörgum umliðnum árum hafi allt of litlu fé verið veitt til rannsókna- og þróunarstarfsemi og nýsköpunarstarfsemi hér á landi. Nú eru horfur á því að þetta breytist. Með fjárlagafrv. er ráðgert að auka stórkostlega þá fjármuni sem í slíka starfsemi eiga að fara. Um næstu helgi verður fundur sem fulltrúar OECD koma á. Því til viðbótar get ég sagt að það er annar hópur að koma frá OECD sem fjallar um efnahagsmálin sérstaklega. Það er reyndar hópur sem kemur einu sinni á ári og þar verður rætt um heilbrigðis- og tryggingamálin en þau mál hafa verið vandamál sem OECD hefur velt fyrir sér árum saman og ég held að nánast allar þjóðirnar í OECD hafi sett áætlun af stað til að draga úr kostnaðinum við heilbrigðis- og tryggingamál. Það má ugglaust læra heilmikið af þeim. Þetta veit ég að fyrrv. heilbrrh. þekkir vel og reyndar kallaði hann hingað aðila sem höfðu komið nálægt slíku í öðrum löndum. Ef ég man rétt voru það Ernst og Young sem er breskt ráðgjafarfyrirtæki, reyndar alþjóðlegt fyrirtæki.
    Um fjmrn., ríkisskattstjóra og skattinn vil ég segja að það er afar brýnt, að mínu viti, að laga til í skattinum. Það þarf nefnilega að breyta áherslunum. Áherslurnar í skattinum hafa verið þær að fylgjast með framtölum, taka framtöl t.d. opinberra starfsmanna sem svíkja held ég ekki margir undan skatti nema þeir kannski sem hafa tekjur af einhverju öðru, ég veit ekkert um það. Síðan hafa starfsmennirnir verið að gá að því hvort viðkomandi starfsmenn hafi fært rétt af launaseðlunum sínum og yfir í skattframtalið eða hvort þeir hafa fært rétt af fasteignamatsskýrslunni yfir í skattframtalið. Í þetta fer heilmikil orka. Það sem við viljum gera og hægt er að gera er að láta prenta á sjálft skattframtalið. Það eru um 100 þús. framseljendur sem í raun og veru gera ekkert nema þetta, að færa einhverjar tölur á milli og ruglast stundum í því óviljandi og fá þá kæru. Síðan er hægt að senda þetta heim til fólks og ef það sættir sig við það sem þar stendur kvittar það bara undir og þá þarf ekki að hugsa um það meir. Þá getur mannskapurinn snúið sér að því sem skiptir miklu meira máli, það er eftirlit. Þess vegna segi ég: Það er þessi þjónusta sem við þurfum að veita og þetta eftirlit sem við eigum að hafa. Það sem hér er að byrja er liður í því sem við ætlum okkur að gera og ég vonast satt að segja til að skilningur sé á því verkefni hjá hv. þm.
    Það er rétt sem hv. þm. sagði um tölvuvæðingu, hún hefur verið dýr og mjög mikill leyndur kostnaður í henni. Það eru ekki bara kaup á einhverjum skermum og tökkum heldur er verið að leggja stokka í allt húsnæðið. Þetta er ekki talið með. Það er bara kallaður innréttingakostnaður. En þetta er hluti af öllum tölvukostnaðinum. Þegar farið er að skoða þetta, og það hefur verið gert af fjmrn., er ég sannfærður um að telja megi á undanförnum árum í hundruðum milljóna útgjöld sem í raun og veru eru dulin útgjöld og ættu að flokkast með tölvuútgjöldum en ekki innréttingakostnaði og öðru slíku.
    Virðulegi forseti. Í lokin vil ég segja vegna spurningar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. --- Ég geri mér grein fyrir því að ég hef talað nokkuð lengi hér. Ég vona þó að mér verði virt það til vorkunnar. Ég hef verið að reyna að svara eða a.m.k. að ræða um fyrirspurnir og athugasemdir. --- Hann spurði um sparnað í heilbrigðiskerfinu. Ég hef ekki svar á reiðum höndum en ég bendi til að mynda á upplýsingar á bls. 275 í fjárlagafrv. þar sem menn geta borið saman tölur um það hvað hefur verið að gerast í

heilbr.- og trmrn. og heilbrigðis- og tryggingamálum. Við verðum samt að hafa í huga að þarna er mesti undirliggjandi vöxturinn.
    Ég var einnig spurður að því hvort það væri alveg tryggt að fjárlagafrv. stæði fyrir sínu, að ekki þyrfti að gera neitt frekar. Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem spurði að því. Ég held að það sé alveg ljóst að gera verður fleiri breytingar. Það er einu sinni þannig að hlutirnir breytast frá einum degi til annars. Ég á von á því að við þurfum í nýju fjáraukalagafrv. eftir jól að gera frekari breytingar. Ef þess þarf ekki er það í fyrsta skipti í sögunni, að ég best veit, að ekki þarf að gera þetta upp í lokin.
    Virðulegi forseti. Ég vonast til að ég hafi komist nokkurn veginn yfir þau atriði sem ég var beðinn um að segja álit mitt á eða svara. Ef svo er ekki mun ég fúslega reyna aftur.