Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 17:12:42 (1577)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst gert tvennt: Hún hefur gert tilraun til þess að draga úr lánsfjárþörf hins opinbera og það sést best á stefnu ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrv. næsta árs og reyndar í fjárlögum yfirstandandi árs og hefur auðvitað verulega mikla þýðingu.
    Hitt sem ríkisstjórnin hefur verið að gera að undanförnu og kannski mest á undanförnum vikum og mánuðum er að koma vaxtaákvörðunum út á markaðinn, láta markaðinn ráða. Það höldum við að sé besta tryggingin fyrir því að ekki verði um slíkar vaxtabreytingar að ræða sem urðu hér á sl. ári þegar þessi ríkisstjórn tók við vegna vanrækslu fyrri ríkisstjórna sem hafði mánuðum saman þrjóskast við að setja vextina í það horf sem þeir raunverulega voru. ( GHelg: Er þetta Eimskip-Samskip aðferðin?)