Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 17:15:24 (1579)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. ræðumanni að sýna einmitt fram á að ekki var um flatan niðurskurð að ræða. Við deildum heilmikið um það þegar þessi breyting var gerð. Ríkisstjórnin hélt því fram að þetta væri ekki flatur niðurskurður einmitt vegna þess að talsverðu af upphæðinni var spilað til baka inn í þessa svokölluðu potta og þannig komið í veg fyrir að um flatan niðurskurð yrði að ræða. Það er einmitt þessi aðferð sem notuð var sem reyndist svo vel að í fyrsta skipti hefur tekist að spara tiltekna prósentutölu úr almennum rekstri ríkisins með þeim hætti sem við sjáum nú blasa við m.a. í þessu frv.