Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 17:31:40 (1583)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pálma Jónssyni fyrir ræðu hans. Þrjú atriði vildi ég þó að kæmu fram í umræðunni.
    Í fyrsta lagi verður það að koma fram að hugmynd nefndarinnar er sú að hvor tveggja hátturinn verði hafður á. Það kemur skýrt fram í framhaldi af því sem hv. þm. las þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Á þessum forsendum lagði vinnuhópurinn til að framsetningu fjárlaga verði breytt þannig að í stað þess að þau séu eingöngu á greiðslugrunni, eins og verið hefur, verði þau sett fram bæði á greiðslugrunni og reikningsgrunni.`` Síðar segir, með leyfi forseta: ,,Í tillögunum er reynt að halda til haga báðum uppgjörsaðferðum því að þær þjóna hvor um sig ákveðnum tilgangi en breytingunni er ætlað að tengja saman og skýra frávikið milli þeirra. Fullt samræmi verður því milli fjárlaga og ríkisreiknings.``
    Þetta var ekki athugasemd heldur bara til fyllingar.
    Í öðru lagi vil ég benda á til fróðleiks að á bls. 375 er gróf uppsetning á báðum aðferðunum. En loks, og það er kannski til þess að taka af allan vafa, þá er mín athugasemd sú að þrátt fyrir það að fjmrn. og fjmrh. hafi látið birta allt á greiðslugrunni er þó ein undantekning á. Það er um kaup á fasteignum. Ég mátti til af því að ég heyrði að hv. þm. notaði það sem dæmi til þess að skýra sitt mál, þ.e. kaup á fasteignum. Það eru einu dæmin um að greiðslugrunnur sé ekki notaður því það er ávallt svo að kaupverðið er fært til gjalda á kaupárinu og stingur það að sjálfsögðu í stúf við meginregluna um greiðslugrunnsaðferðina.