Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 17:33:53 (1584)

     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja það um húsið sem ég tók sem dæmi að það var einfalt að nota slíkt dæmi til að skýra mitt mál þó að það sé vafalaust rétt sem hæstv. fjmrh. segir um meðferð þeirra mála. Ég gerði það hins vegar einvörðungu til að lengja ekki ræðu mína um of í lok umræðunnar að fjalla ekki um þetta atriði sem hér kemur fram í uppástungu frá vinnuhópnum um að setja fjárlagafrv. bæði fram á greiðslugrunni og rekstrargrunni. Ég get lýst því yfir að ég er andvígur þeirri aðferð og sú aðferð mun ekki verða til þess að greiða fyrir skilningi fólks á þessum málum eða hafa þetta í því einfaldasta formi sem unnt er. Það er ekkert sem hindrar það að setja frv. eða þessi gögn fram á rekstrargrunni svo sem gert er með ríkisreikning vegna þess að yfirleitt hefur ekki verið fundið að því að erfitt sé að ganga frá ríkisreikningi. Yfirleitt hafa ekki komið fram sterkar athugasemdir við það hvernig ríkisreikningur er settur fram.