Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 17:49:21 (1587)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja umræðuna mikið. Ég gat því miður af óviðráðanlegum orsökum ekki verið viðstaddur í dag þegar hæstv. fjmrh. flutti framsöguræðu fyrir málinu eða hlýtt á upphaf umræðunnar. Mig langar að gera tvær athugasemdir eða svo við síðari ræðu hæstv. ráðherra og kannski að árétta spurningu eða spurningar varðandi hans mál. Þær fjalla einkum um þann þátt er varðar heilbrigðisútgjöldin í frv. til fjáraukalaga sem hér er nú til umræðu.
    Það er auðvitað ljóst að ekki hefur tekist að standa við þann sparnað sem áætlaður var í fjárlögum ársins í ár og þarf út af fyrir sig ekki að setja langa ræðu á um það. Þar tala tölurnar skýru máli og reyndar nokkuð sama þó að hæstv. ráðherra reyni aftur og aftur að vitna til þess að sparnaður í rekstri hafi þrátt fyrir allt náðst og útgjöldin sýni það og frv. sem lagt var fram fyrir ári síðan hafi verið það traustasta og besta sem lagt hafi verið fram enda nýjum vinnubrögðum beitt. En niðurstöðurnar eru á blaði fyrir framan okkur og ég ætla ekki, eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, eyða löngum tíma í það.
    Ég held að það hefði mátt leita annarra leiða sem hefðu gefið meiri sparnað í heilbrigðisþjónustunni en þann sem raun ber vitni. T.d með því að huga ofurlítið að ráðleggingum ráðgjafanna Ernst og Young, sem hæstv. ráðherra minnti okkur á áðan, en hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. gengu reyndar alveg þvert á þær tillögur sem þar voru fram settar um skipulag á rekstri sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu, svo dæmi sé tekið og á það minnt nú. Verður sjálfsagt hægt að fjalla um það síðar þegar rætt er um fjárlögin sjálf fyrir næsta ár og hvernig útgjöld hafa þróast á þessu ári við rekstur hinna þriggja stóru sjúkrahúsa á Reykjavíkursvæðinu.
    Það sem mig langaði að nefna er fyrst það að áætlaður sparnaður í lyfjaútgjöldum hefur ekki náðst fram. Eru fyrir því ef til vill að hluta til þær ástæður að reglugerðir sem hugsað var að beita til þess að koma á hlutfallsgreiðslu í lyfjum tóku síðar gildi en áætlað hafði verið. Ég hygg þó að slíkar tillögur gefi ekki mikinn sparnað í þessum útgjöldum en þær gera hins vegar væntanlega hitt, sem hæstv. fjmrh. nefndi, þær vekja kostnaðarvitund hjá almenningi. Ég er út af fyrir sig hlynntur þeirri stefnu. Ég tel rétt að reyna eftir þeim leiðum sem við höfum tiltækar að vekja kostnaðarvitund hjá almenningi um útgjöld heilbrigðisþjónustunnar. Hins vegar er ég ekki alveg sammála því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að það væri nauðsynlegt að innleiða þessar greiðslur í stærri stíl. Ég mundi a.m.k. vilja vita hvað hann á við þegar hann talar um stærri stíl í því efni, ég held ég hafi skrifað þetta orðrétt eftir honum, því ef það er svo að einstaklingar þurfi að auka svo greiðslur sínar vegna heilbrigðisþjónustunnar að hætta sé á að þeir nýti sér ekki þessa nauðsynlegu þjónustu held ég að við séum komin að hættumörkum.
    Einnig held ég að það sé óeðlilegt að taka upp á sjúkrahúsunum eða heilsugæslustöðvunum einhvers konar skattstofur þar sem eigi reyna að ná því fram á þeim vettvangi hverjir hafa efni á að greiða og hverjir ekki. Það eigum við að gera í hinni almennu skattalöggjöf. Þar eigum við að leita leiða til þess að láta þá sem geta greitt skatta greiða þá en ekki setja upp skattstofur í heilsugæslustöðvunum, á sjúkrahúsunum eða jafnvel í skólunum, þegar verið er að innleiða þessa kostnaðarvitund eins og við höfum rætt um, en það óttast ég að verði gert ef á að fara að taka upp slíkar greiðslur í stærri stíl, svo ég vitni aftur til orða hæstv. ráðherra áðan.
    Hæstv. ráðherra ræddi um þann sparnað í lyfjaútgjöldunum sem ekki hefur náðst upp á 300--400 millj. kr. Reyndar ber upplýsingum fjáraukalagafrv. annars vegar og upplýsingum frá heilbrrn. hins vegar ekki alveg saman sem er kannski ekki aðalmálið heldur hvernig það verður meðhöndlað. Hæstv. ráðherra sagði að ekki hefði enn náðst fullt samkomulag um meðferð þessa máls milli ráðuneytanna. Ég tek þá skýringu hans trúanlega og vænti þess að leiðrétting verði gerð á þessu máli í meðferð fjárln. á frv. sem er til umræðu. En ég bendi á að þá hefur eitthvað breyst frá því að frv. var lagt fram. Ef ég má vitna í grg. frv., með leyfi forseta, segir í kaflanum þar sem fjallað er um útgjöld almennt:
    ,,Enn fremur er áætlað að allt að 300 millj. kr. útgjaldaaukning sjúkratrygginga á þessu ári færist til næsta árs.``
    Í kaflanum þar sem sérstaklega er fjallað um heilbr.- og trmrn. og málaflokka þess er þetta sjónarmið áréttað og segir:
    ,,Loks er talið að greiðslur sjúkratrygginga vegna lyfjakostnaðar verði allt að 300 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga. Þau útgjöld munu koma til frádráttar heimildum næsta árs.``
    Þessu veit ég að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur mótmælt og talið að þetta væri óframkvæmanlegt. Þó hann hafi gerst mikill baráttumaður fyrir því að reyna að spara og hagræða í heilbrigðisútgjöldunum, stundum að vísu meira af vilja en mætti, þ.e. það hefur ekki allt náðst fram það sem hann hefur lagt til, hefur hann þó séð að í viðbót við það sem fjárlagafrv. fyrir næsta ár gerir ráð fyrir yrði þessum 300--400 millj. kr. ekki bætt við. Það segir okkur líka að hallinn á hallinn á ríkissjóði verður a.m.k. sem þessu nemur hærri en frv. það sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir.
    Annað sem mig langaði að árétta enn frekar og einnig kom fram í seinni ræðu hæstv. ráðherra áðan er ósk heilbrrn. um lagfæringu á sértekjum Ríkisspítalanna. Ég verð að segja að ég var nokkuð hissa á því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra áðan þegar hann lét orð falla á þá leið að ráðuneyti fjármála hafi aldrei fallist á að Tryggingastofnun ríkisins greiddi þessar sértekjur Landspítalans sem spítalanum er ætlað að innheimta og segir síðan að stofnanir verði að standa við fjárlög.
    Við skulum segja að sú setning út af fyrir sig sé góð og gild ef menn leyfa sér að líta fram hjá

því, sem ég tel að hæstv. ráðherra hafi gert, hvernig að málum var staðið. Ég verð aðeins að fá að rifja það upp, virðulegur forseti, að við fjárlagagerðina í fyrra fyrir fjárlög þessa árs var gert ráð fyrir því að Ríkisspítalarnir afli sértekna með ákveðnum hætti. Síðan kemur í ljós að það stenst ekki vegna þess að það er enginn greiðandi af þessum sértekjum. Það er út af fyrir sig hægt að ætla stofnunum að innheimta sértekjur ef menn eru sammála um hvernig eigi að standa að því og hvernig þær sértekjur eigi að innheimtast. Þá er auðvitað eðlilegt að gera kröfu um það að stofnanirnar standi við slíka innheimtu. Það á alveg eins við um rekstrarútgjöld hvers konar. Ef spara á ákveðna upphæð á launalið eða í útgjöldum þá reyna menn að standa við það.
    En hér var sem sagt ljóst að það var enginn greiðandi að þessum sértekjum upp á 100 millj. kr. og það er viðurkennt í grg. fjárlagafrv. fyrir næsta ár sem nú liggur fyrir. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa eina setningu upp úr grg. þess frv. Þar segir:
    ,,Breytingar til hækkunar frá forsendum fjárlaga 1992 eru annars vegar lækkun sértekna um 123 millj. kr. Þar af eru 100 millj. kr. tekjur sem ofmetnar voru í rekstraráætlun fyrir árið 1992.``
    Hér er þetta viðurkennt og þess vegna er sjúkrahúsinu ekki ætlað að innheimta þetta á næsta ári, og skal engan undra, en samt á að gera ráð fyrir því núna þegar skammt lifir af þessu ári að Ríkisspítalarnir standi við fjárlögin hvað þetta varðar.
    Ég verð að ítreka þá spurningu til hæstv. fjmrrh.: Hvernig hugsar hann sér að Ríkisspítalarnir innheimti þessar sértekjur? Hver á að greiða þessar sértekjur upp á 100 millj. kr. sem búið er að viðurkenna í fjárlagafrv. fyrir næsta ár að enginn greiðandi er að og þess vegna er sértekjuáætlun Ríkisspítalanna lækkuð sem þessu nemur?
    Ég vonast til þess að menn nái saman um þetta. Ríkisspítalar hafa eins og aðrar stofnanir lagt sig fram um það að standa við fjárlög þessa árs, að vísu með þeim afleiðingum að það hefur þurft að draga úr þjónustunni og deildum verið lokað. Þetta veit almenningur. Þetta vita að sjálfsögðu allir hv. alþm. og hæstv. ríkisstjórn. Samkvæmt forsendum sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir var fyrir löngu ljóst að þessi sérstaka upphæð, 96 millj. kr. í sértekjur Ríkisspítalanna á þessu ári, mundi ekki innheimtast og ekki verið gert ráð fyrir því að það væri neinn greiðandi að þeim sértekjum sem fjárlögin fyrir árið í ár gera ráð fyrir.
    Þá hlýt ég að spyrja hæstv. fjmrh. hvort honum detti það virkilega í hug, hvort hann ætlist virkilega til þess að enn verði skorið niður um 100 millj. kr. hjá Ríkisspítölunum á þessum fáu vikum sem eftir lifa af þessu ári. Ég trúi því reyndar ekki og ég trúi því ekki að hann sjái ekki og viðurkenni ekki í raun að hér er nánast um óleysanlegan hlut að ræða og geta ekki verið rök fyrir öðru, miðað við það sem ég hef talið fram og fjmrn. reyndar sjálft viðurkennt og samþykkt fyrir næsta ár, en viðurkenna þessa staðreynd fyrir árið í ár.
    Þetta langaði mig, virðulegi forseti, að árétta sérstaklega í þessum umræðum hér og nú. Það mætti auðvitað sjálfsagt fleira tína til en ég lengi ekki umræðurnar frekar. Ég veit að það hefur verið farið yfir hina ýmsu málaflokka í umræðunum í dag sem ég gat því miður ekki hlýtt á og læt þetta því duga.