Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 18:11:14 (1589)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skil vel þörfina á því að setja fjáraukalög til þess að ganga endanlega frá svo viðamiklu máli eins og fjárlögin eru en ég skil hins vegar ekki þörfina á því að fara allt í einu að samþykkja aukavegáætlun til þess að fá stimpil Alþingis á geðþóttaákvarðanir ríkisstjórnar og samgrh. í vegamálum. Þetta eru algerlega óþolandi vinnubrögð, ekki síst í ljósi þess að um framkvæmd vegamála hafa skapast afskaplega fastar og ég vil segja farsælar reglur í ráðuneyti og Alþingi með vegáætlun eins og þar hefur verið unnið, m.a. á þann hátt að það séu þingmenn kjördæmanna sem endanlega skipti vegafénu í hverju kjördæmi fyrir sig.
    Ef á að halda áfram á þessari braut þá veit ég ekki hvað kemur hæst. En að mínu mati er þetta næsta stig við það að ríkisstjórn ætli að fara að stjórna með tilskipunum nánast í öllum málum og ætli síðan að bjarga sér út úr málinu með því að koma með tillögu að einhvers konar aukavegáætlun og taka 50 millj. af snjómokstursfé til undirbúnings þessara útboða. Segja má um þetta, eins og sagt var einu sinni, að kannski er hægt að finna því stað að þetta sé löglegt en ég efast mjög um siðferðið á bak við. Þarna er verið að sniðganga lög á afar vafasaman hátt.