Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 18:13:29 (1590)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fullvissa hv. þm. um að það hefur verið leitað til Ríkisendurskoðunar þannig að það er ljóst að ekki er verið að brjóta lög.
    Í öðru lagi vil ég að það komi fram að það þykir afar heppilegt að fara í þessar vetrarframkvæmdir, annars vegar vegna þess að það fæst meira út úr útboðum núna en ella og hins vegar vegna þess að með þessum hætti er komið í veg fyrir atvinnuleysi talsvert stórs hóps manna. Ég held að ef við lítum til allra þessara þátta þá sé ofur eðlilegt að málið komi inn í þingið með þeim hætti sem gert er ráð fyrir. Ég veit að hv. þm. getur þá gert sínar athugasemdir en ég held að langflestir skilji að hér er verið að gera hluti sem eðlilegir, nauðsynlegir og æskilegir eru og þetta breytir í engu skiptingarreglum á milli kjördæmanna

eins og glöggt mun koma fram í þeirri þáltill. sem lögð verður fyrir þingið innan tíðar.