Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 18:16:43 (1592)

     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf við spurningum mínum. Við vitum þá nokkru meira um það nú hvernig hann getur hugsað sér að láta einstaklinga taka meiri þátt í kostnaði við heilbrigðisþjónustuna heldur en í hans fyrri ræðu. Ég vil þó benda á að það að hækka hlutfall einstaklinga í þátttöku við greiðslu lyfja úr 25% í 30% gefur ekki nema 150 millj. Auðvitað eru 150 millj. miklir peningar þannig að ég á kannski ekki að orða það svo að segja ,,ekki nema`` vegna þess að auðvitað munar einstaklingana um það og ef ætti að ná 300--400 millj. kr. út úr þessu, þá sjá menn hvert stefnir því að ég býst við því að þar að auki veiti hæstv. heilbrrh. ekki af að finna einhverjar aðrar leiðir eða hækka hlutfallið enn meira ef hann á að standa við það sem fjárlagafrv. næsta árs gerir ráð fyrir og væntanlega fjárlög þessa árs. Þetta vil ég láta koma fram.
    En ég vil líka segja við hæstv. ráðherra að mér fannst hann gefa aðeins undir fótinn með að það yrði að skoða betur sértekjumál Ríkisspítalanna og ég fagna því vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að ef hér væri um einhvern misskilning að ræða þá yrði að sjálfsögðu að skoða það. Ég held að það hljóti að vera misskilningur þegar stofnun eru ætlaðar 100 millj. kr. í tekjur án þess að gera ráð fyrir því hver eigi að greiða þær eða hvaðan þær tekjur eigi að koma. Ef það væri ákveðið að það ætti að innheimta af inniliggjandi sjúklingum; ef það hefði verið í forsendum þessa fjárlagafrv. þá hefðu Ríkisspítalarnir auðvitað orðið að bregðast við því. Við því væri ekkert að segja. Það er bara ákvörðun stjórnvalda, það er bara ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að standa þannig að málinu og Ríkisspítalarnir, eins og aðrar sjúkrastofnanir, hefðu þá orðið að bregðast við því en það er ekki. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir neinum greiðanda og þess vegna tel ég að það sé einsýnt að það verði að leiðrétta málið.