Kvöldfundur

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 19:01:06 (1598)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Það kemur forseta á óvart ef menn hafa ekki gert ráð fyrir því að þessi fundur gæti orðið langur. Eins og réttilega kom fram í máli hv. 2. þm. Austurl. er í starfsáætlun þingsins gert ráð fyrir að á þriðjudögum geti þingmenn notað daginn og kvöldið ef á þarf að halda til þess að ljúka dagskrá þess fundar. Þess vegna hefur verið gert ráð fyrir því að halda áfram þangað til dagskráin væri tæmd. Forseti hafði ekki gert ráð fyrir því að gera kvöldverðarhlé heldur að reyna að komast hjá því að fundurinn yrði langt fram eftir kvöldi og nýta tímann sem best. Forseti hafði þá gert sér vonir um að menn gætu verið lausir fyrr eða milli kl. átta og níu.
    Eins og hv. þm. vita jafn vel og forseti þá er oft erfitt að áætla hvað umræður verða langar í hverju máli fyrir sig og nú hefur umræðan um fjáraukalögin tekið lungann úr deginum og tekið það langan tíma að við erum rétt að byrja á umræðu um annað málið sem tekið hefur verið fyrir. Þar sem í ljós hefur komið að þingmenn hafa ráðstafað sér annað þrátt fyrir að það sé þriðjudagur hafði forseti gert ráð fyrir því að fresta umræðu um þau mál sem eru á dagskrá, þ.e. 5. og 6. dagskrármálinu auk þess að fresta umræðu um lánsfjárlög héðan í frá, en hafði gert ráð fyrir að mælt væri fyrir nál. í 7. og 8. dagskrármálinu. Nú heyrist forseta að hv. 2. þm. Austurl. sé að fara fram á að þau mál verði heldur ekki tekin fyrir og vill ítreka spurningu sína hvort það sé rétt skilið að hv. 2. þm. Austurl. sé að fara fram á að þau verði ekki tekin fyrir nú.