Síldarverksmiðjur ríkisins

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 14:14:09 (1615)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en byrjað á því að taka undir undrun þeirra sem hér hafa talað á undan mér yfir því að tíminn í sumar skuli ekki hafa verið notaður til þess að laga þá augljósu ágalla sem á frv. eru enn þrátt fyrir ítarlega umræðu og fróðlega í sjútvn. á síðasta vetri. Það er áreiðanlega hægt að gera betur en hér er gert. Spurningin er: Vantar viljann eða er verið að knýja fram pólitíska línu með þessu? Er verið að drífa í að einkavæða einkavæðingarinnar vegna og án þess að hugsa? Spyr sá sem ekki veit.
    Ég trúi því hins vegar að í nefnd muni verða unnt að ræða þetta mál rétt eins og í fyrra og taka á þeim ágöllum sem á frv. eru. Einn af helstu ásteytingarsteinunum þá var að í frv. eru ákvæði sem eru gjörsamlega óásættanleg varðandi þá starfsmenn --- það er í 7. gr. --- sem fá tilboð um að vinna hjá ósambærilegu fyrirtæki, þ.e. hlutafélagi en hafa áður verið ríkisstarfsmenn. Þetta held ég að sé alveg hægt að sjá þrátt fyrir ýmsar hártoganir um það að breyting í hlutafélag sé bara formbreyting og ekkert annað. Það er auðvitað ekki svo. Það fer ekkert á milli mála að breytingin í hlutafélag á jafnframt að þýða það að hlutir í félaginu sem fyrst verða í eigu ríkisins verði seldir á almennum markaði. Það er ekki verið að fara í launkofa með það. Þetta þýðir einfaldlega að staða þeirra manna, sem samkvæmt 7. gr. eiga kost á að starfa hjá hinu nýja fyrirtæki, verður önnur.
    Sagt hefur verið: ,,Auðvitað eru hvorki svartir né hvítir fletir á þessu máli.`` Og ýmsir hafa orðið til að benda á að nær væri að breyta 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en að ómerkja lögin með því að drita slíkum ákvæðum í hin og þessi frv. Það er auðvitað einfaldlega ekki réttur gangur mála. Menn geta síðan tekist á um hvað þeim þykir rétt og rangt við þá leið sem er farin. Ég vil vekja athygli á því, hæstv. forseti, að framsögumaður meiri hluta sjútvn. sagði þann 12. maí sl., með leyfi forseta, að ,,persónulega hafi hann talið réttara að breyta ákvæðum 14. gr. laga, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, bæði hvað varðar þetta mál sem og önnur.``

Þetta er efnislega orðrétt eftir haft.
    Þetta er auðvitað dálítið furðuleg staða. Síðan voru ýmis vilyrði í sambandi við kjarasamninga o.fl. sem menn báru fyrir sig. Mér finnst þetta einfaldlega ekki nothæf vinnubrögð og geri enn og aftur athugasemd við þetta.
    Það hefur ýmislegt breyst síðan frv. var fyrst lagt fram. Sem betur fer hefur staða Síldarverksmiðjanna batnað og auðvitað hljótum við öll að fagna því. Ég vil taka það sérstaklega fram í þessari umræðu að margir sem gerst þekkja til Síldarverksmiðja ríkisins og þess kerfis sem þar hefur verið byggt upp, ekki síst sölu- og markaðskerfis, hafa varað eindregið við því að fyrirtækinu verði skipt upp meira og minna án þess að hægt sé að tryggja að um samstarf verði að ræða á milli þeirra eininga sem fyrirtækið gæti hugsanlega liðast í sundur í. Það tekur töluverðan tíma að byggja upp viðskiptavild og slíkt hefur ævinlega verið vanmetið hér á Íslandi. Mér er það raunar óskiljanlegt hversu seint gengur að fá það metið að verðleikum að það þarf að byggja upp tengsl á mörkuðum og byggja upp viðskiptavild. Viðskiptavinirnir hafa getað gengið að nokkuð öruggri vöru með viðskiptum við Síldarverksmiðjurnar og ákveðinn stöðugleiki hefur verið sem ýmislegt, svo sem aflabrestur og fleira, hefur gripið inn í. Það hefur verið ákveðin festa í þessum rekstri þrátt fyrir allt. Ég ætla ekki að segja að hann hafi verið gallalaus en ég ætla bara að benda á það að einingin sem slík, stærðin og sölukerfið, eru hlutir sem verður að gefa gaum. Það þýðir ekki annað en að horfa á þetta opnum augum. Það þýðir ekki að vera eins og strúturinn, að stinga sífellt höfðinu í sandinn. Ég sé enga aðra leið en að segja þetta bara hreint út hér.
    Það er verið að tala um það fögrum orðum að gefa heimamönnum möguleika á að kaupa einstakar einingar. Ef við lítum fram hjá þessum ágöllum sem ég var að benda á er næsta spurning: Á að selja þessa hluti fullu verði eða á að færa heimamönnum fyrirtækið? Og hverjir eru þá heimamenn? Eru það einhverjir sérstakir aðilar eða er það almenningur? Hverjir hafa bolmagn til að kaupa eða þarf bolmagn? Og hver ætlar að skammta? Ég sé ekki að það sé ljóst samkvæmt frv. Ég veit að vísu að við reyndum innan sjútvn. í fyrravetur að benda á þessi atriði og ná fram ákveðnum skilningi. Ég held að það hafi að mörgu leyti verið hugmyndir margra að viðurkenna þessar staðreyndir. En ég sé ekki að við höfum þær fast í hendi. Ég held líka að það sé af og til ástæða til að staldra við og spyrja siðferðilegra spurninga eins og t.d.: Hvenær hefur ríkið leyfi til að afhenda eigur sínar, t.d. á lágu verði og hvaða lögmál eiga að ríkja þegar ákveðið er hverjir fá niðurgreidda hluti keypta? Nú er ég ekki að segja að sú verði raunin í þessu tilviki en það er ekkert sem segir að það geti ekki orðið og því miður höfum við fordæmin fyrir okkur. Þessara spurninga þarf því að spyrja.
    Ég vænti þess að í nefnd munum við hafa möguleika til að halda umræðunni áfram. Ég vona að hún verði málefnaleg. Ég vona að hún verði gagnleg og ég vona að hún verði undanbragðalaus.