Fuglaveiðar og fuglafriðun

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 14:49:02 (1619)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það má segja varðandi þetta mál, frv. sem hæstv. umhvrh. hefur hér mælt fyrir um breytingu á lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun, að víða teygja sig angar fjórfrelsisins og þess nýja réttar sem innleiða á ef vilji ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga um að lögfesta á Íslandi samning um Evrópskt efnahagssvæði. Menn hafa kannski gert sér vonir um að þetta fjórfrelsi væri bundið við athafnir og þéttbýli er tengdist líkum umsvifum en ekki að angar þess teygðu sig út fyrir borg og bý, upp á hálendi landsins og upp á lendur sem eru skilgreindar frá fornu fari sem almenningar. Nú er það ljóst að margt er óljóst um réttarstöðu að því er almenninga snertir og raunar afrétti líka. Ég hygg því að í þessum efnum eigi eftir að koma til, ef samningur um Evrópskt efnahagssvæði verður lögfestur, enn frekari álitamál og deilur ef Evrópuréttur verður ríkjandi. Það verður að segja hæstv. umhvrh. til hróss að mér sýnist hann vera skylduræknari en ýmsir aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni sem bera það fyrir brjósti að lögfesta samning um Evrópskt efnahagssvæði þar sem hann sér ástæðu til að leggja fram frv. til þess að brjóta hugsanlega ekki gegn þeim rétti sem hér stendur til að innleiða. Ég hefði gjarnan viljað sjá það að aðrir ráðherrar í ríkisstjórn landsins hefðu sýnt af sér ekki minni samviskusemi í því er lýtur að þessu stóra máli og legðu hér fyrir þingið með skaplegum fyrirvara frv. sem skýrðu réttarstöðu Íslendinga á hinum mikilvægustu sviðum sem lúta að þessu máli, þar á meðal að því er varðar fasteignir og kaup á landi og varðandi íslenskar náttúruauðlindir sem tengjast eignarrétti á landi, svo sem um virkjunarrétt fallvatna og jarðhitaréttindi. Því er hins vegar ekki að heilsa og þó liggur fyrir nefndarálit, sem hæstv. umhvrh. byggir frv. sitt á, frá þremur til kvöddum mönnum, raunar er það álitsgerð sem samin er að beiðni dóms- og kirkjumrh. og landbrh. og kom út í júní 1992. Í henni er aðalrökstuðningurinn í athugaemdum við lagafrv. þetta:
    Eins og menn minnast komu þar fram ákveðin sjónarmið varðandi mörg atriði sem lúta að Evrópsku efnahagssvæði og fasteignum á Íslandi og það sjónarmið að í raun og veru hljóti Evrópurétturinn undantekningarlaust og án hindrana að ganga yfir okkur Íslendinga að því er varðar fasteignakaup og kaup á landareignum. Það má vera að þetta hafi sannfært hæstv. landbrh. þannig að hann hyggist ekki sýna hér á þinginu nein frv. um takmarkanir á fjórfrelsinu að því er þetta varðar. Það eigum við eftir að sjá. Það snertir ekki þetta einstaka mál nema í almennu samhengi þessa stóra samnings. En við hljótum að spyrja hvað valdi því að þau efni koma ekki fram á sama tíma. Og þó, hæstv. umhvrh. vill hafa vaðið fyrir neðan sig að því er varðar fuglaveiðar í sambandi við almenninga í landinu með því frv. sem hann ber hér fram.
    Frv. kveður á um það, eins og gerð hefur verið grein fyrir, að erlendir aðilar fái sama rétt og Íslendingar til veiða á almenningum, a.m.k. ef þeir uppfylla skilyrði um búsetu sem hæstv. ráðherra er að afla heimildar til að sett verði samkvæmt þessu lagafrv. Það er alveg ljóst að hér er um gæði að ræða sem hafa þótt mikils verð hér á landi um langa hríð en ekki síður og líklega enn frekar víða í útlöndum, að hafa rétt til veiða á lendum, ekki síst á víðum lendum eins og gefur hér á Íslandi upp til óbyggða. Það er því engan veginn ástæða til að líta svo á að hér sé eitthvert lítilfjörlegt mál á ferðinni, eitthvað sem ekki er líklegt að reyni á. Ég gæti trúað því, ef svo illa fer að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verður lögfestur og staðfestur af öðrum þátttakendum þannig að hann gangi í gildi, að þá eigi eftir að reyna á þetta mál og menn eigi eftir að finna fyrir aukinni samkeppni um þau náttúrugæði sem þarna er verið að opna fyrir.
    Ég vek líka athygli á því sem fram er tekið í álitsgerðinni, sem hæstv. umhvrh. vitnar til, að það er ekki aðeins svo að hann telji að engar hömlur verði lagðar á gagnvart þeim sem öðlast búseturétt hér eða lögheimili samkvæmt nýjum rétti og nýjum reglum, þ.e. allir þeir erlendu launamenn sem hér fá leyfi til vinnu geta fengið atvinnu, þeir eru um leið búnir að fá þennan rétt og halda honum meðan þeir dveljast í landinu án takmarkana. Það er alveg ljóst.
    Í öðru lagi segir hér, og ég vek athygli á því sem fram kemur í greinargerð með frv. og hæstv. ráðherra las í sinni framsögu: ,, . . .  hins vegar er ekki útilokað að erlendur aðili sem nyti EES-réttar stofnaði til atvinnustarfsemi sem fælist í því að skipuleggja ferðir, þar sem þátttakendur færu til fuglaveiða á umræddum svæðum.``
    Hér vísa þeir, sem sömdu álitsgerðina sem ráðherrann byggir á, á stofnsetningarréttinn, þ.e. þeir sem reka fyrirtækið þurfa ekki að vera íslenskir ríkisborgarar í þeim skilningi. Þar gildir sami réttur yfir allt svæðið, rétturinn til að stofna til atvinnustarfsemi. Þeir hinir sömu geta þá nýtt sér þann rétt til að selja aðgang að almenningum í landinu, til að nýta þau gæði sem þar eru, þar á meðal það sem hér er til umræðu, veiðar á villtum fuglum. Það er raunar verið að undirstrika það með framlagningu frv. að sá sé skilningurinn hjá stjórnvöldum hérlendis. Ég tel það sannarlega slæmt hvernig þessu máli er komið. Þetta er stórt mál í heild sinni með allar þær mörgu fylgjur sem af því hljótast og því tengjast. Hér er einn angi á ferðinni, margir mundu segja ekki sá stærsti, en hann er alvarlegs eðlis samt.
    Það eru fleiri þættir sem snúa að veiðiskap og almenningum sem rétt er að koma

að hér. Raunar er það svo að varðandi almenninga eru í lögum á Íslandi forn ákvæði, Jónsbókarákvæði, sem menn kannast vafalaust við og hafa gilt hér um langa hríð. Þau eru úr landsleigubálki Jónsbókar frá 1281, en þar segir í 52. kafla undir fyrirsögninni: ,,Ef menn vitu eigi hvárt eru almenningar eða afréttir.
    Svá skulu almenningar vera sem at fornu hafa verit bæði hit efra ok hit ytra . . .  ``
    Þetta er tilvísunin varðandi mörk almenninga. Síðan er að finna í 57. kafla landsleigubálks ákvæði um merkta fugla og ómerkta. Þar er að vísu fyrst og fremst fjallað um merkingu fugla á eigin landi en þar segir einnig, og það getur varðað þetta mál. Ég vitna til þess kafla sem í gildi er: ,,Í hvers landi sem elptr verpa, [það mun vera forn beyging á álft í fleirtölu] þá eignist sá er markar, ef hann veitir atróðr í sínu landi. . . .   Nú hafa elptr þrjú sumur orpit í sama landi samfleytt, þá eignast sá er þat land átti, í hvers landi sem hann kreppir ok merkir, ok þó at annarr marki, þá á hann, ef grannar hans vilja þat með eiði sanna, at þeim þykki þat líkast, at þær elptr hafi í hans landi orpit, en hinn hafi þó fyrir starf sitt.``
    Þetta varðar varp fugla, nýtingu og nýtingarrétt. Þarna er fjallað um það, miðað við að um sé að ræða landareignir. En ég spyr: Hvað um almenninga og réttinn að því er varðar almenninga, hin víðlendu svæði í óbyggðum Íslands sem meiningin er að hleypa á í óheftri samkeppni við Íslendinga veiðimönnum og áhugamönnum um veiðar frá allri Vestur-Evrópu? Þeir munu vera ófáir og kunna nokkuð vel til verka, þeir sem elta spörfuglana og hafa æft sig lengi á farfuglum sem héðan eru komnir til Evrópu. Íslendingar hafa löngum undrast, ég segi ekki dáðst að, miklu frekar undrast þann veiðiskap á spörfuglum, sólskríkju og minni fuglum. Sólskríkjan er þó staðfugl hér á landi og kann að verða sérstaklega eftirsótt upp til fjalla og óbyggða. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi kembt Jónsbókarákvæði að þessu leyti og hvort ríkisstjórnin hafi mótað sér afstöðu til þess m.a. að því er varðar merkingar á fuglum.
    Það eru hins vegar fleiri þættir sem snerta veiði sem ástæða gæti verið til að víkja að. Í nefndarálitinu frá þeim þremenningum er kveðið svo á að nokkuð annað gildi um lax- og silungsveiði og það þurfi ekki að hafa áhyggjur af henni í sambandi við fjórfrelsið. Ég spyr hæstv. umhvrh. að því hvort hann sé alveg viss um að ástæðulaust sé að hafa engar áhyggjur af þeim veiðiskap. Ég vísa einnig til þess sem snýr að fuglaveiðunum í sambandi við landareignir. Ég skal taka það á undan veiðum á laxi og silungi, þ.e. það sem kveður á um í 2. gr. um fuglaveiðar og fuglafriðun. Þar segir í 3. tölul. í 2. gr.:
    ,,Eigi má skilja rétt til fuglaveiða að nokkru eða öllu leyti við landareign fyrir fullt og allt. En leyfilegt skal að skilja rétt til fuglaveiða við landareign um tiltekið tímabil, er eigi má vera lengra en 10 ár í senn.``
    Þarna er sem sagt heimild til að undanskilja tímabundið veiðirétt á landareignum. Nú veit ég ekki hvað hæstv. umhvrh. hefur hugsað í sambandi við stefnumótun um þetta almennt í sambandi við frv. sem hann flutti í fyrra og var að boða endurflutning á því. Mér er það ekki í minni en mér sýnist að þarna gæti verið opnað fyrir það, á grundvelli þessa ákvæðis, að veiðiréttur á fuglum sé undanskilinn landareign og seldur. Þá sýnist mér nokkuð ljóst að það hljóti að geta orðið býsna margir á grundvelli EES-réttar til þess að keppa um þau réttindi. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi ætlað sér að marka stefnu um þessi efni áður en EES-samningurinn komi til framkvæmda, sem við skulum vona að verði nokkur bið á, og hvert viðhorf hans sé til þessa atriðis.
    Það er ekki ósvipað efni sem er að finna einmitt í lögum um lax- og silungsveiði frá 1970 en í 4. tölul. 2. gr. um veiðirétt segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Eigi má skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti við landareign, hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma, sbr. þó 5. mgr. 14. gr., annan en stangarveiðirétt, en hann má skilja við landareign um tiltekið tímabil, er þó má eigi vera lengra en 10 ár, nema leyfi ráðherra komi til og veiðimálastjóri og veiðimálanefnd mæli með því, að leyfið sé veitt.``
    Þarna er sem sagt um ákveðna heimild að ræða sem gefur færi á að undanskilja veiðiréttinn og má vera að þetta sé tíðkað nú þegar í sambandi við meðferð og ráðstöfun á lax- og silungsveiði. Um það vil ég ekki fullyrða.

    Það eru mörg fleiri efni sem snúa að afréttum og almenningum sem eru kannski fremur á verksviði annarra ráðherra en hæstv. umhvrh. Þar eru m.a. afréttarmálefni og efni sem lúta að fjallskilum og öðru þess háttar. Það skyldi ekki vera að framkvæmdastjórnin í Brussel þyrfti innan tíðar að hafa einhver afskipti af þeim efnum vegna ákvæða í íslenskri löggjöf varðandi afrétti og notkun þeirra og fjallskilamálefni? Út í þá sálma ætla ég ekki að fara hér og nú þar sem umræðuefnið er þetta tiltekna frv. og af nógu að taka að því er það mál snertir.
    Ég tel að hér sé um að ræða mjög varhugaverð ákvæði sem hugmyndin er að leiða í lög hér á landi og raunar slæm ákvæði. Það er hins vegar lagt hér fyrir sem sjálfsögð afleiðing þess, af hálfu hæstv. ráðherra að því er virðist, að til stendur af hálfu ríkisstjórnar að fá EES-samning lögfestan í þinginu.
    Ég vænti þess að hæstv. ráðherra komi að þeim atriðum sem ég hef spurt um sérstaklega og ég inni hann jafnframt eftir því hvort það sé hans ásetningur að nýta þær heimildir um búsetuskilyrði og aðrar takmarkanir sem vikið er að í frv. en óskað er eftir heimildum fyrir ráðherra til þess að setja. Nú segir það út af fyrir sig ekki margt um það hvað sitjandi ráðherra hverju sinni vill gera, og segir ekkert um það hver verður afstaða þeirra sem við tekur. Þar er því ekki á vísan að róa. Engu að síður fyndist mér eðlilegt að heyra um viðhorf ráðherrans að þessu leyti.