Fuglaveiðar og fuglafriðun

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 15:19:35 (1622)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Fáein orð í viðbót. Það er greinilegt að menn vita ekki mjög nákvæmlega hvað þeir eru með í höndunum þegar þeir eru að fjalla um þetta mál. Það sést vel í greinargerðinni sem fylgir frv. Hér er ekki tekið mjög skýrt til orða. Þar eru setningar eins og ,,hins vegar er ekki útilokað . . .  Talið er . . .  væntanlega ekki gert kröfu . . .  er vafasamt að hægt sé . . .  `` o.s.frv. Mér finnst skrýtið að sjá það að menn skuli vera nánast með vangaveltur í greinargerð með lagafrv. um það hvort hlutirnir séu svona eða á hinn veginn. Það stendur t.d. hér: ,, . . .   hins vegar er ekki útilokað að erlendur aðili sem nyti EES-réttar stofnaði til atvinnustarfsemi sem fælist í því að skipuleggja ferð þar sem þátttakendur færu til fuglaveiða á umræddum svæðum.``
    Menn eru sem sagt ekki vissir um þetta. Ég held að það eitt að setja þetta í greinargerðina sýni að þó að svona sé til orða tekið séu menn reyndar vissir um þetta. Þeir væru bara varla að nefna það annars að þessi möguleiki sé fyrir hendi.
    Ég tek undir það sem hv. 7. þm. Reykn. var að segja áðan að vitanlega þurfa menn ef þeir ætla í alvöru að fara inn í þetta ferli að reyna að setja allar þær skorður sem hægt er. Ég tel að það sé ýmislegt sem megi gera. Er t.d. nokkuð verið að athuga hvort ekki sé rétt að setja strangari reglur um meðferð skotvopna sem erlendir aðilar eigi að undirgangast eins og Íslendingar, þ.e. að menn eigi að geta framvísað vottorðum um að þeir hafi skotveiðileyfi með sama hætti og Íslendingar og þekkingu á þeim íslensku fuglum sem má veiða, hvenær ársins megi veiða þá og annað því um líkt, og þurfi að fá uppáskrift á Íslandi fyrir þessu? Þeir aðilar sem kæmu til landsins og hefðu það að markmiði að veiða fugla þyrftu að fara í gegnum einhverja ákveðna síu.
    Ég tel fulla ástæða til að skoða þessi mál mun betur og ég hvet til þess að það verði gert í þeirri nefnd sem fær frv. til umfjöllunar. Það held ég geti annars valdið verulegum vanda. Menn vita ekkert hvað það getur vafið hratt upp á sig ef t.d. er hægt að fara að skipuleggja ferðir þar sem hluti af ferðunum er veiðimennska. Það er mikill áhugi á veiðum, ekki bara á Íslandi. Menn hafa haft áhyggjur af að veiðiferðir okkar eigin landa gangi of langt og jafnvel sé gengið allt of nærri fuglum og dýrastofnum. Við getum allt í einu staðið frammi fyrir því að hér hafi kannski orðið þróun sem er erfitt að stöðva, að til landsins komi stórir hópar sem fara að nýta sér möguleika sem við gerum okkur ekki grein fyrir í dag að eru fyrir hendi og jafnvel að alls konar hagsmunir landa okkar sem mundu tengjast þessum veiðiferðum og yrðu til trafala við að setja nýjar reglur til að koma í veg fyrir að það yrði skaði á náttúrunni.
    Þetta er eitt með öðru sem sýnir okkur fram á að margt þarf að skoða og að mörgu að hyggja í sambandi við þetta stóra mál og þessi mál öll. Ég endurtek það að ég hvet nefndina til þess að skoða það vandlega hvort hún kemur ekki með tillögur um ákvæði í lögunum sem gætu sett varnagla þannig að hægt væri að beita reglum ef í óefni stefndi.