Stefna stjórnvalda í áfengis- og fíkniefnameðferð

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 15:41:53 (1627)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Vesturl. fyrir að gefa tilefni til að ræða þessi mál hér og ég þakka hv. þm. fyrir það einnig að taka málið upp með nokkuð öðrum hætti en gert hefur verið á opinberum vettvangi að undanförnu og láta hjá líða að veitast að þeim sem hafa unnið ágætt starf á þessum vettvangi. Það gerði hv. þm. alls ekki, öfugt við það sem sums staðar annars staðar hefur gerst.
    Það er vissulega ástæða til þess að vekja athygli á því hve margir aðilar það eru sem fást við meðferð áfengissjúklinga og þeirra sem hafa orðið vímuefnum að bráð. Heilbrrn. styrkir nú starfrækslu átta stoðbýla og áfangahúsa sem hér segir: Dyngjan í Snekkjuvogi, þar er rými fyrir 20 konur; Krossgötur í Kópavogi, þar er rými fyrir 8 karlmenn; Risið í Mjölnisholti, þar er rými fyrir 25 karlmenn; Þrepið á Laugarásvegi, þar er rými fyrir 12 karlmenn; SÁÁ á Akureyri, þar er rými fyrir 9 karlmenn; Skjöldur á Ránargötu, þar er rými fyrir 23 karlmenn; Takmarkið, Barónsstíg, þar er rými fyrir 18 karlmenn og Vernd á Laugarteig en þar er rými fyrir 17 karlmenn.
     Hér er alls um að ræða 132 rými í stoðbýli og áfangahúsum og eftir því sem best

er vitað eru þau alltaf fullsetin. Þeir sem eitthvað vinna og vistast þarna greiða hluta vistunargjalds en fjölmargir eru atvinnulausir og greiða ekkert og þar myndast skuld. Þessi starfsemi er yfirleitt unnin í sjálfboðavinnu af einstaklingum og félagasamtökum sem eru að vinna mikið miskunnarverk. Það fólk sem þarna vistast er í mjög mörgum tilvikum fólk sem hefur verið í meðferð á meðferðarstofnunum ríkisins en meðferð hefur ekki borið árangur. Það er ástæða til þess að geta þess að þeir aðilar sem þessi stoðbýli starfrækja hafa náð umtalsverðum árangri með fólk sem aðrar aðferðir hafa ekki skilað árangri með.
    Á þessu ári hefur á vegum heilbrrn. verið framkvæmd sérstök skoðun á starfsemi allra þessara aðila og í framhaldi af þeirri skoðun hefur heilbrrh. tekið þá ákvörðun að styðja við bakið á þessari starfsemi því að ég tel að þarna sé fólk að vinna gott verk.
    Sjúkravistun fyrir áfengissjúklinga sem ýmist eru greidd með föstum fjárlögum eða með daggjaldi frá Tryggingastofnun ríkisins er sem hér segir: SÁÁ að Vogi 60 rými, SÁÁ að Staðarfelli 30 rými, Vík á Kjalarnesi 30 rými, Hlaðgerðarkot 30 rými, Víðines 70 rými, Gunnarsholt 30 rými. Áfengisdeild á Vífilsstöðum er nú rekin með 16 rýmum en var upphaflega ráðgerð og byggð fyrir 23 vistmenn og áfengisdeild á geðdeild Landspítala með 15 rými. Samtals eru þetta ekki 200 sjúkrarúm, eins og hv. 2. þm. Vesturl. sagði hér áðan, heldur 281 sjúkrarúm.
    Það er alkunna að þar fyrir utan eru starfræktar meðferðarstofnanir sem veita slíku fólki viðtöku, bæði meðferðarstofnunin fyrir unglinga á Kjalarnesi, sem nú er starfrækt á vegum félmrn. en var áður starfrækt á vegum menntmrn. og enn fremur meðferðarstofnun fyrir ungmenni í Krýsuvík sem fjárveitinganefnd/fjárlaganefnd Alþingis hefur stutt á undanförnum árum. Það er því um allmiklu fleiri meðferðarrúm og vistrými í stoðbýlum að ræða en látið hefur verið í veðri vaka. Það eru eitthvað á fimmta hundrað rúm og vistunarpláss sem boðið er upp á til meðferðar af þessu tagi.
    Það er auðvitað alveg rétt, og ég er ekkert að draga fjöður yfir það, að einn þáttur í tillögum ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrv., sem ég er að sjálfsögðu ábyrgur fyrir ásamt mínum samráðherrum, er að draga úr framlögum ríkisins vegna meðferðar áfengissjúklinga. Það er ástæðulaust að draga neina fjöður yfir það. Það er verið að gera tillögur um það. Ástæðan er að sjálfsögðu ekki sú að við teljum að sú starfsemi sem þarna er rekin sé ekki góð og nauðsynleg. Ástæðan er sú að við verðum að draga úr kostnaði. Við verðum draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu og ég treysti mér ekki til þess að halda öllu lengra á þá braut sem haldin var á þessu ári, þ.e. að skera niður fjárveitingar til einstakra sjúkrahúsa, til bráðaþjónustu sem þar er veitt.
    Ég á nú í viðræðum við SÁÁ um að leita sameiginlegra lausna við SÁÁ um þessi meðferðarmál og mun væntanlega eiga viðræður við stjórnarnefnd Ríkisspítala um sama málefni. Fyrsti fundur þar um verður væntanlega á morgun. Ég trúi því og treysti að með ákveðinni hagræðingu, m.a. með aukinni göngudeildarstarfsemi, sem er ódýrari starfsemi en innlagnir og getur verið ekkert síður árangursrík, geti bæði Ríkisspítalar og SÁÁ haldið áfram þeirri þjónustu sem þeir veita í dag. En jafnvel þó að svo færi að ekki væri hægt annað en leggja niður rúmin á Vífilsstöðum og Staðarfelli er þar um að ræða 46 rými en ekki 52 sem jafngildir um það bil 16% samdrætti en ekki þeim skelfilegu afleiðingum sem verið er að tala um og látið er í veðri vaka í fjölmiðlaumfjöllun.