Stefna stjórnvalda í áfengis- og fíkniefnameðferð

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 15:56:09 (1632)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil við þessa umræðu segja að það er í fyllsta máta eðlilegt að teknar séu upp viðræður og umræður um rekstur hinna margvíslegu og mörgu meðferðarheimila og stofnana sem sinna áfengissjúkum og ekki síst þegar árar eins og nú, en hins vegar er á það að líta að um allt þjóðfélagið blasa við samfélagsleg verkefni, samfélagsleg vandamál sem tengjast ofneyslu á vímuefnum og þá sérstaklega e.t.v. áfengi.
    Meðferðarheimili, sem eru rekin hér, bæði á vegum opinberra aðila og ekki síður einkaaðila, hafa sýnt það að þau gegna mjög mikilvægu hlutverki og þess vegna verður með öllum ráðum að standa sem best að rekstri þessara stofnana.
    Tilefni þess að ég vildi leggja hér orð að eru viðbrögð fulltrúa SÁÁ en viðbrögð þeirra vöktu nokkra undrun mína þegar fjárlagafrv. kom fram, þá voru fyrstu viðbrögðin þau að lýsa því yfir að e.t.v. yrði eftirmeðferðarheimilið að Staðarfelli lagt niður, þ.e. starfsemi þess. Þar eru 30 rúm, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, sem sinna eftirmeðferð en 60 rúm eru á meðferðarheimili SÁÁ í höfuðborginni. Ég get ekki séð að SÁÁ hafi möguleika á því að standa að sinni starfsemi með sama hætti og áður ef heimilið að Staðarfelli verður algjörlega lagt niður, fyrir utan það að sú starfsemi sem hefur farið fram Staðarfelli hefur gefið mjög góða raun og hefur mjög gott orð á sér.
    Ég vil þess vegna leggja ríka áherslu á að í allri þessari endurskipulagningu sem e.t.v. er nauðsynleg á þessum meðferðarheimilum er mikilvægt að heimili eins og heimilið að Staðarfelli fái möguleika á að starfa áfram með þeim sama hætti og verið hefur þrátt fyrir að e.t.v. þurfi að endurskipuleggja og styrkja þennan rekstur í tengslum við þá skoðun sem fer fram alls staðar í okkar þjóðfélagi. En ég vil endurtaka að þessi starfsemi er afar mikilvæg.