Stefna stjórnvalda í áfengis- og fíkniefnameðferð

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 16:01:49 (1634)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svörin og hv. þm. fyrir umræðuna.
    Ég verð að segja að ég sakna faglegrar umfjöllunar um málaflokkinn af hálfu hæstv. ráðherra því þegar ég er að tala um 200 rúm þá er ég að tala um 200 sjúkrarúm. Og ég er að tala um að þeim fækki um 52. Ég vil ekki sundra þeim fjölmörgu sem eru að vinna að þessum málum, en ég geri greinarmun á sjúkrarúmum og almennri félagslegri hjálp. Ég á eftir að sjá hvernig það verður, hvort við eigum ekki eftir að sjá á bak mörgum merkum stofnunum einmitt vegna þess að það vantar faglega umfjöllun um málið. En kannski átti ég ekki endilega von á að fá hana hér vegna þess að í útvarpsviðtali við hæstv. ráðherra í gær sagði hann að það væri ekki hlutverk ráðuneytisins að meta hvernig hefur til tekist á einstaka stofnunum, heldur væri blint skorið niður fé, ef ég skildi hann rétt. En það er einmitt það sem við þurfum að gera, við þurfum að meta árangurinn af meðferðinni og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að telja upp öll þau úrræði sem til eru. Ég þekki þau. En ég er að tala um sérstaka meðferð og mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara spurningum mínum.
    Ég spurði hæstv. ráðherra hvort honum þætti ekki rétt að farið væri eftir læknisfræðilegum ráðleggingum í sambandi við afeitranir. Ég sakna þess að hafa ekki fengið svar við því. Ég sakna þess líka að hafa ekki fengið svar við þeirri spurningu sem ég spurði í sambandi við forvarnirnar. Ég hrósaði hæstv. ráðherra fyrir þá miklu og góðu ráðstefnu sem hann hélt fyrir ári síðan og þeim tillögum sem hann hafði í sambandi við forvarnir, en það kom ekkert fram í máli ráðherra um forvarnastarfið sem ég tel það dýrmætasta af öllu saman, að koma í veg fyrir þennan sjúkdóm. Það er auðvitað það dýrmætasta og kemur þegar til lengri tíma er litið best út.
    Ég held satt að segja að því miður sé enginn sparnaður í þessum niðurskurði hjá hæstv. heilbrrh. vegna þess að niðurskurðurinn kemur bara niður annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Við fáum þessa sjúklinga á handlækningadeildirnar og á lyflækningadeildirnar eins og gerðist á árum áður. Það eru dýrari lausnir með litlum árangri.