Fuglaveiðar og fuglafriðun

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 18:21:16 (1642)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Nokkur atriði vegna ræðu hæstv. ráðherra en að öðru leyti gefst mér kostur á að fjalla um þetta mál í þeirri þingnefnd sem ráðherrann leggur til að fái frv. til meðferðar. Þar mun það vafalaust verða gaumgæft. Hæstv. ráðherra bætti ekki miklu við til upplýsingar um það sem ég var að spyrjast fyrir um. Í raun staðfestir ráðherra það sem kemur fram í greinargerðinni, að líkur séu á því að á grundvelli réttinda fyrirtækja sé hægt að hefja hér starfsemi, t.d. á sviði ferðaþjónustu sem geri út á veiðar í almenningum. Ráðherrann benti á að að vísu væru þar ákvæði sem snertu skotvopn, um tímabundin leyfi varðandi skotvopn. Mér heyrist að þau ákvæði séu ekki meiri hindranir en svo að það verði tiltölulega auðvelt að uppfylla þau af þeim aðilum sem vildu nýta sér þessa möguleika. Þannig sé þetta fullkomlega raunverulegur möguleiki sem þarna er bent á af þeim þremur aðilum sem sömdu álitsgerðina fyrir dóms- og kirkjumrh. og landbrh. í sumar er leið. Þetta stendur því eftir hvað þetta ákvæði varðar.

    Hæstv. ráðherra benti líka á að þegar væru brögð að framleigu á rétti hjá landeigendum. Ég tek undir að það er áhyggjuefni og atriði sem menn verða auðvitað að átta sig á, hvert er verið að fara, hvert stefnir í þeim efnum. Það ætti að vera nokkuð ljóst að eftir að þeim fjölgar sem nýta sér svona hlunnindi eða þá tegund útivistar sem tengist veiðiskap og fleiri koma þar að getur orðið erfiðara að talda utan um hagsmuni umhverfisverndar á þessum sviðum. Það er ekki saman að jafna veiði í ám og vötnum þar sem seld eru veiðileyfi og hins vegar veiði á fuglum í almenningum á landi í einkaeign. Það er mun erfiðara að hafa eftirlit með slíku og aðhaldið sem viðkomandi aðilar geta veitt er áreiðanlega til muna minna að því er varðar fuglaveiðar en t.d. að því er varðar veiðar í ám og vötnum. Þetta finnst mér liggja nokkuð skýrt fyrir.
    Þá er það sá þáttur sem snýr að miðhálendinu sérstaklega. Hæstv. ráðherra bar fram á síðasta þingi frv. til laga um miðhálendið sem sérstaka stjórnsýslueiningu. Við ræddum það frv. í 1. umr. og það gekk til nefndar. Frv. fékk misjafnar undirtektir í þinginu eins og menn kannski muna. Ég tók jákvætt undir þau markmið sem þar voru sett fram og þær meginhugmyndir sem ráðherra reifaði í frv. og hafði raunar komið að málinu með vissum hætti á undirbúningsstigi. Ég held að ef slík mál væru komin í höfn eftir þeim meginhugmyndum sem ráðherra viðraði þá væri til muna auðveldara að halda utan um stjórnun mála og gæslu þeirra hagsmuna sem umhvrn. þarf að fylgjast með, hverjir svo sem þeir eru sem við er að skipta eða hverjir nýta viðkomandi svæði. Það er mikil ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessum málum vegna þess stjórnleysis eða veiku stjórnunar sem er á óbyggðum hér eins og mál eru núna þótt við hefðum ekki við aðra að skipta en landsmenn sjálfa í þeim efnum. Vissulega vex sá fjölda erlendra ferðamanna sem kemur og nýtir sér óbyggðir Íslands sem eðlilegt er en með þeim hætti að það er býsna erfitt að ráða við þann straum og stýra því þannig að gætt sé umhverfissjónarmiða eins og vera þyrfti. Það er m.a. inn í þetta samhengi sem ég er hér að mæla mín aðvörunarorð hvað snertir það að auka þarna við álagið, fjölga þeim notendum umfram okkur Íslendinga sem frv. gerir ráð fyrir að verði. Eins og ráðherra leggur málið fyrir er það óhjákvæmilegt að hans mati vegna Evrópsks efnahagssvæðis.
    Hæstv. ráðherra greinir okkur e.t.v frá því hvað líði endurflutningi frv. um stjórnsýslu á miðhálendi Íslands sem skiptir miklu máli. Eins og menn þekkja hafa verið uppi hugmyndir um að stækka þar mjög verulega verndarsvæði. Sumir hafa sett fram hugmynd um þjóðgarð fyrir mest allt miðhálendið eða allt miðhálendið ofan ákveðinna marka. Á því eru ákveðnir meinbugir gagnvart gildandi lögum vegna eignarréttarsjónarmiða. En ég er eindregið þeirrar skoðunar að þarna höfum við auðlind má segja þar sem eru óbyggðirnar, mjög þýðingarmikil verðmæti og skiptir þá ekki máli hvort um gróið land eða ógróið er að ræða. Óbyggt land með þeim sérkennum sem hálendi Íslands hefur að geyma verður verðmætara eftir því sem tímar líða svo fremi sem okkur tekst að varðveita þessi verðmæti og stýra nýtingunni á þeim með eðlilegum hætti svo þau bíði ekki hnekki af notkuninni. Það hlýtur að vera meginmarkmiðið. Mér finnst að það sé mjög óvarlega að málum staðið að lögfesta ákvæði af þessum toga, jafnóljós eins og allur grunnurinn er að því er snertir stjórnun, eftirlit og möguleika til að halda utan um umhverfishagsmunina í óbyggðum.